Lagarfljótsormurinn

(Endurbeint frá Lagarfljótsormur)

Lagarfljótsormurinn er vatnaskrímsli sem talið er, samkvæmt þjóðsögum, að lifi í Lagarfljóti. Ormsins er fyrst getið í annálum árið 1345 og má lesa um hann í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Segir sagan að ormurinn hafi í fyrstu verið lítill lyngormur, sem settur var á gullhring. Þannig átti gullið að vaxa. Þegar eigandi hringsins kom að nokkru síðar sá hún sér til mikillar skelfingar að ormurinn hafði stækkað gríðarlega en hringurinn ekki. Kastaði hún þá hringnum og orminum í Lagarfljót þar sem ormurinn hélt áfram að vaxa.

Skipið sem ber nafn ormsins

Í vatni eins og Lagarfljóti geta plöntuleifar sem hafa safnast saman og rotnað á vatnsbotninum myndað mýrargas og gosið upp í dökkum, bogamynduðum strók. Það er svipað fyrirbrigði og hrævareldar yfir mýrum. Það, ásamt því að í vatninu eru klapparhryggir sem vatn brýtur á kann að útskýra sögur um Lagarfljótsorminn.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. Hlustað eftir lægsta punkti Íslands,Þjóðviljinn, 179. tölublað (13.08.1958), Blaðsíða 3