Lúðrasveit Hornafjarðar
Lúðrasveit Hornafjarðar er íslensk lúðrasveit starfrækt á Höfn í Hornafirði.
Hún var stofnuð 1975 af Gunnlaugi Þresti Höskuldssyni tónlistarkennara á Hornafirði, var hann og fyrsti stjórnandi Lúðrasveitarinnar. Jóhann Morávek tók við af Gunnlaugi Þresti og stjórnar hann sveitinni enn í dag, auk þess er hann stjórnandi Karlakórsins Jökuls, skólastjóri og kennari við Tónskóla Austur Skaftafellssýslu.
Lúðrasveitin er fremur virk og kemur fram við ýmis tækifæri á Hornafirði, má þar nefna hátíðarhöld á 17. júní, hátíðarhöld á 1. maí, Jólatónleika Karlakórsins Jökuls, auk tónleika sveitarinnar.
Lúðrasveitin hefur undanfarin ár haldið Sumar-Humartónleika í maí, og hefur þeim tónleikum fyrir löngu vaxið fiskur um hrygg og eru þeir nú þekktir viða um land. En þá koma gestir saman gæða sér á humarsúpu og njóta fjölbreytts flutnings sveitarinnar, auk þess sem Skólahljómsveit Tónskólans kemur fram.
Efnisval sveitarinnar er afar fjölbreytt. Allt frá kvikmyndatónlist til klassískra verka. Jóhann hefur verið duglegur við að útsetja fyrir sveitina auk þess sem flutt hafa verið verk eftir hann sjálfan, má þar nefna Hornafjarðarmars sem flestar lúðrasveitir á landinu þekkja og hafa spilað.