Lóla

Íslensk hljómsveit

Lóla er hljómsveit sem var stofnuð á Seyðisfirði vorið 1978 og starfaði með hléum til ársins 1982. Lóla er sennilega kunnust fyrir lagið „Fornaldarhugmyndir“ sem kom út á samnefndri 7 tommu plötu árið 1982 og var endurútgefið á plötunni 100 íslensk 80‘ lög árið 2007.

Sveitin starfaði í ýmsum myndum á þessu tímabili en frá stofnun voru þau Aðalheiður Borgþórsdóttir söngkona, Tómas Tómasson gítarleikari og Emil Guðmundsson trommuleikari. Þau ásamt Birni Vilhjálmssyni bassaleikara hljóðrituðu Fornaldarhugmyndir og kom platan út hjá Steinum Hf. hljómplötuútgáfu og á B-hliðinni var lagið „Sámur frændi“

Lóla hafði þá áður unnið titilinn „Hljómsveitin ´82“ á Atlavíkurhátíðinni um Verslunarmannahelgina og hlaut langflest atkvæði bæði hátíðargesta og dómnefndar. Verðlaunin voru m.a. stúdíótímar í Stúdíó Grettisgati þeirra Stuðmanna sem voru aðalnúmerið á hátíðinni og áttu veg og vanda af keppninni.

Lögin voru hljóðrituð seinnipart ágúst og sat Júlíus Agnarsson við takkaborðið, Jakob Frímann Magnússon stjórnaði upptökum og Gunnar Smári Helgason hljóðblandaði. Töluvert var til af efni og voru tvö önnur lög hljóðrituð þennan dag „Mannvera“ og „Ég sjálf“ og áttu að koma út á væntanlegri breiðskífu sveitarinnar síðar á árinu. Öll lög og textar voru eftir Lólu. Textinn „Sámur frændi“ var eftir Guðmund Sig. Jóhannesson.

Fornaldarhugmyndir fékk gríðarlega góðar viðtökur og kom sveitin víða fram í framhaldinu m.a. á Melarokki þeim goðsagnakenndu tónleikum.

"Þó verður að minnast á stærstu tónleikana, en það voru Melarokkið.... . Þessir hljómleikar náðu því að verða atburður, þarna náðist upp mikil stemmning og mikil samkennd.... Lítið var um óvæntar uppákomur, það var helst hljómsveitin Lóla frá Seyðisfirði sem kom á óvart.“ (Ársuppgjör Vikunnar 2. tbl. 1983)[1]

Sveitin lagði svo óvænt upp laupana seinna um haustið og meðlimir hurfu til annarra starfa. Lóla hefur þó komið fram síðan við hátíðleg tækifæri. Aðrir meðlimir Lólu voru Auðbjörg Bára Guðmundsdóttir, Magnús Einarsson, Keith Reed, Þorsteinn Arason, Hrafnhildur Borgþórsdóttir, Björn Hallgrímsson, Bjarni Halldór Kristjánsson, Ingvar Lundberg, Harpa Þórðardóttir o.fl.

Heimildir

breyta
  1. „Ársuppgjör '82“. Vikan. 13-01-1983.