Lífeyrismál á Íslandi
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Á Íslandi eru allir skyldugir að greiða í lífeyrissjóð frá aldrinum 16-70 ára. Lágmarkshlutfall sem greitt er í lífeyrissjóð er 15,5% af launum. Þessar greiðslur eru oft kallaðar skyldusparnaður í daglegu tali. Skylduaðildin gildir fyrir alla, ekki aðeins launafólk heldur einnig stjórnendur, einyrkja og aðra sjálfstæða atvinnurekendur. Þeir sem eru í sjálfstæðum rekstri er gert að standa bæði skil á opinberum gjöldum og greiðslum í lífeyrissjóð. Skylduaðildin er eitt af þeim atriðum sem talin eru gera það að verkum að íslenska lífeyriskerfið er hátt skrifað á alþjóðlegum samanburði. Algengast er að 4% séu dregin af launþega en launagreiðandi greiði 11,5%.
Íslenska lífeyriskerfið er að stærstum hluta samtryggingarkerfi sem þýðir að sjóðfélagar sameinast um að tryggja hver öðrum ellilífeyri til æviloka og verja sjóðfélaga og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi og vegna örorku eða andláts. Út úr íslenska lífeyriskerfinu fá sjóðfélagar ellilífeyri frá starfslokum til æviloka, örorkulífeyri ef fólk missir starfsorkuna vegna slysa eða veikinda og maka- og barnalífeyri ef sjóðfélagar falla frá.
Flestir íslensku lífeyrissjóðanna eru eingöngu með samtryggingarsjóð sem þýðir að sjóðfélagar safna lífeyrisréttindum (elli-, örorku-, maka- og barnalífeyrisréttindum) í lífeyrissjóðina. Þau réttindi er ekki hægt að flytja á milli sjóða og eru ekki erfanleg eign. Þessi réttindi eru eftir sem áður mjög verðmæt og í flestum tilfellum verðmætasta eign fólks starfslok.
Sumir lífeyrissjóðir eru með blandað fyrirkomulag á skyldusparnaðinum sem þýðir að hluti af skyldusparnaði fer í réttindi en hluti í séreignarsjóð. Hámarkshluti sem greiða má í séreignarsjóð af skyldusparnaði er 7% en dæmi um undantekningu er Almenni lífeyrissjóðurinn en þar fer tæpur helmingur eða 7% af 15,5% skylduiðgjaldinu í erfanlegan séreignarsjóð.
Allar greiðslur úr skyldusparnaðarhluta lífeyrissjóðanna, bæði úr samtryggingar og séreignarhluta þeirra hafa áhrif á greiðslur TR til lífeyrisþega. Áhrif lífeyrisgreiðslna á greiðslur frá TR er ákvörðun stjórnvalda hverju sinni.
Tæpur helmingur fólks getur valið í hvaða lífeyrissjóð það greiðir en rúmleg helmingur er bundinn kjara- eða ráðningarsamningi.