Kynjalyfið (franska: L'Élixir du Docteur Doxey) eftir belgíska teiknarann Morris (Maurice de Bevere) er sjöunda bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1955, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1952-1953. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Svindlararnir Samuel Doxey og hjálparhella hans, Scraggy, ferðast milli bæja í Villta Vestrinu og reyna að græða peninga á því að selja bæjarbúum mixtúru sem sögð er lækna öll mannsins mein. Þegar Scraggy gerir þau mistök að bæta rottueitri út í mixtúruna í staðinn fyrir græna myntu veikjast íbúar í bænum Green Valley heiftarlega og þeir félagar þurfa að flýja bæinn í snatri. Á leið sinni til næsta bæjar rekast þeir á Lukku Láka sem kemur þeim til aðstoðar, en þeir launa honum hjálpina með því að ræna Léttfeta. Lukku Láki eltir Doxey og Scraggy til bæjarins Fairbank og afhjúpar svikamyllu þeirra félaga þar. Þá halda þeir áleiðis til bæjarins Sugarbowl Valley þar sem Doxey fær þá hugmynd að valda magakveisufaraldri með því að spilla bæjarlæknum og liðka þannig fyrir sölu á mixtúru sinni.

Fróðleiksmolar breyta

  • Bókin hefur í raun að geyma tvær sögur þar sem snákaolíusölumaðurinn Samuel Doxey er í aðalhlutverki. Sú fyrri heitir á frummálinu Lucky Luke et le Docteur Doxey og þar segir af fyrstu kynnum Lukku Láka og Doxey. Seinni sagan, Chasse à l'homme, hefst á því að Doxey strýkur úr fangelsi og tekur upp fyrri iðju. Hjálparkokkurinn Scraggy kemur ekkert við sögu í seinni sögunni.
  • Bókinni lýkur á svipaðan hátt og bókinni Lukku Láka og Langa Láka, þ.e. með því að Lukku Láki skýtur byssukúlu í öxl Doxey og færir hann aftur í fangelsi.
  • Karakterinn Samuel Doxey kemur við sögu í tveimur kvikmyndum sem gerðar voru um Lukku Láka, þ.e. kvikmyndunum Les Dalton frá árinu 2004 og Lucky Luke frá árinu 2009. Þá birtist persónan í bókinni Jolly Jumper ne répond plus (ísl. Léttfeti svarar ekki) eftir Guillaume Bouzard sem kom út árið 2017.

Heimildir breyta

  • Lucky Luke. The Complete Collection 3. Cinebook. 2019.