Kvæðakver er ljóðabók eftir Halldór Laxness. Bókin var það fyrsta sem hann gaf út eftir heimkomu frá Bandaríkjunum 1930. Bókin inniheldur ástarljóð, kvæði um Íslendinga, söngkvæði, menningarljóð, sorgarkvæði og svo lengi má telja. Dæmi um þekkt kvæði úr bókinni eru „Í túninu heima“, „Við Öxará“, „Bráðum kemur betri tíð“, „Maríukvæði“ og „Únglíngurinn í skóginum“. Mörg ljóðin einkennast af formtilraunum og þóttu nýstárleg. Alþingi ákvað að svipta Laxness skáldalaunum út af „Únglíngnum í skóginum“ sem telst vera fyrsta súrrealíska ljóðið á Íslensku.

Árið 1949 kom út aukin útgáfa þar sem bætt var við ljóðum sem höfðu birst í öðrum verkum Laxness. Mörg þessara ljóða hafa öðlast sjálfstætt líf og eru þekkt, til dæmis „Maístjarnan“ úr Heimsljósi.

Ljóðagerð var alla tíð aukabúgrein hjá Halldóri Laxness, þar sem hann einbeitti sér að ritun skáldsagna en kryddaði þær gjarnan með ljóðum og kvæðum sem seinna var bætt inn í Kvæðakver. Kvæðakver er eina ljóðabókin sem Halldór gaf út sjálfur á ferli sínum, en ýmsar sérútgáfur með kvæðum hans hafa komið út síðan.