Knattspyrnufélagið Framtíðin

Knattspyrnufélagið Framtíðin var hafnfirskt íþróttafélag stofnað 9. júní árið 1919. Það starfaði um nokkurra ára skeið og átti sinn þátt í sögu og þróun knattspyrnuíþróttarinnar í bæjarfélaginu.

Tvö knattspyrnufélög voru stofnuð í Hafnarfirði á rétt rúmlega viku sumarið 1919. Fyrst Knattspyrnufélagið Framtíðin og skömmu síðar Knattspyrnufélagið 17. júní sem dró nafn sitt af stofndeginum. Þessi nýkviknaði fótboltaáhugi var rakinn til þess að fimmtán ára piltur, Sigurbjörn Ásgrímsson, var þá nýfluttur frá Reykjavík. Hann hafði kynnst íþróttinni þar og hafði bolta með í för. Áður höfðu verið starfrækt fótboltalið í Hafnarfirði, þar á meðal Geysir og Kári, sem liðið höfðu undir lok skömmu fyrr.

Framtíðin og 17. júní öttu kappi í fyrsta sinn í september þetta sama ár, en bæði lið voru á nokkrum hrakhólum í fyrstu og voru æfingar og kappleikir á ýmsum stöðum uns knattspyrnuvöllur á Hvaleyrarholti var tilbúinn á árinu 1920. Munu félagsmenn í Framtíðinni hafa æft spretthlaup þar auk knattspyrnunnar.

Árið 1921 bættist Framtíðinni nýr liðsmaður, Magnús Stefánsson, sem skjótt var gerður að formanni félagsins. Hann varð síðar þjóðkunnur maður undir skáldanafni sínu, Örn Arnarson. Það reyndist sigursæll tími í sögu félagsins sem keypti bikar og stofnaði til knattspyrnumóts milli Hafnarfjarðarliðanna sem fram fór á vori hverju. Framtíðarliðar unnu þrjú ár í röð og hlutu verðlaunagripinn til eignar.

Mjög dró úr knattspyrnuiðkun félagsmanna eftir árið 1923. Þannig var einungis æft á sunnudögum sumarið 1925, en ekki fjóra daga í viku líkt og tíðkast hafði nokkrum misserum fyrr. Framtíðin telst endanlega hafa lognast út af á árinu 1926, en gamlir meðlimir hennar voru í hópi þeirra sem stofnuðu hið skammlífa Knattspyrnufélag Hafnarfjarðar sem æfði og keppti sumarið 1927.[1]

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. „Lesbók Fjarðarfréttir 1. desember 1981“.

Heimildir

breyta
  • Ásgeir Guðmundsson (1981). Íþróttafélög í Hafnarfirði 1907-1929, Fjarðarfréttir, 1. des. 1981.