Kjartan Valdemarsson

Kjartan Valdemarsson (f. 1967) er íslenskur djasspíanóleikari og tónskáld. Hann nam píanóleik við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar áður en hann hélt til Bandaríkjanna, þar sem hann stundaði nám við Berklee College of Music 1985-1989. Hann er kennari við Tónlistarskóla FIH, auk þess að starfa sem píanóleikari við Listdansskóla Íslands og Íslenska dansflokkinn.

Kjartan hefur leikið með flestum íslenskum djasstónlistarmönnum og einnig spilað mikið af popptónlist, m.a. með hljómsveitinni Todmobile. Hann hefur starfað í leikhúsum og unnið mikið í hljóðverum, bæði sem hljómborðsleikari og upptökustjóri. Kjartan er einnig eftirsóttur útsetjari, en hann hefur gert mikið af útsetningum, m.a. fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur. Þá lék hann um tíma með einni af fremstu stórsveitum Svíþjóðar; Norbotten Big Band. Kjartan er afkastamikið tónskáld og hefur meðal annars gert tónlist fyrir sjónvarp, til dæmis fyrir Spaugstofuna og Áramótaskaupið.