Kennitöluflakk (eða kennitöluhopp) kallast það þegar fyrirtæki sem sér fram á gjaldþrot flytur eignir sínar yfir á nýja kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á gömlu kennitölunni. Þannig getur eigandi fyrirtækisins haldið áfram að reka það án þess að borga skuldir þess, því kröfuhafarnir geta aðeins gengið að þeim eignum sem skráðar eru á gömlu kennitöluna.

Í könnun sem nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík gerðu á stjórnendum 600 íslenskra fyrirtækja kom fram að rúmlega 73% íslenskra fyrirtækja höfðu tapað fjármunum á kennitöluflakki og þriðjungur þeirra hafði tapað fjármunum á kennitöluflakki oftar en 6 sinnum. Mikill meirihluti af þeim stjórnendum sem tóku þátt sögðu að þörf væri á lagasetningu til að stemma stigu við kennitöluflakki.[1]

Herferð Samtaka iðnaðarins breyta

Samtök iðnaðarins hafa verið harðorð í gagnrýni sinni á kennitöluflakk í íslensku atvinnulífi og árið 2004 fóru samtökin í herferð gegn kennitöluflakki.[2] Samtökin hafa meðal annars bent á ábyrgð lánastofnana og opinberra aðila varðandi kennitöluflakk. Í leiðara Íslensks iðnaðar í desember 2004 stendur:

 
Átak til að stemma stigu við svikum og kennitöluflakki skilar tæpast árangri nema fjármálastofnanir taki fullan þátt í því. Allt of algengt er að lánastofnanir aðstoði kennitöluflakkara við að halda áfram uppteknum hætti og of mörg dæmi eru um að lánastofnanir taki þátt í að skipuleggja það sem kalla mætti vel undirbúið gjaldþrot. Þrotamaður heldur síðan áfram rekstri og bankaviðskiptum eins og ekkert hafi í skorist. Fjármálastofnanir geta ekki sóma síns vegna aðstoðað óreiðumenn við að ræna viðskiptamenn sína.[3]
 

Þar stendur einnig:

 
Undanfarið hefur komið fram að opinberir aðilar hérlendis skoði lítt eða ekki viðskiptasögu bjóðenda í útboðum. Meginhlutverk innkaupastofnana lögum samkvæmt er þó að tryggja hagkvæmni í meðferð almannafjár og stuðla að samkeppni á jafnræðisgrunni. Lög um opinber innkaup mæla skýrt fyrir um að þær aðstæður sem einkenna kennitöluflakkara þ.e. vanskil og greiðsluþrot, útiloki samningsgerð.[3]
 

Tilvísanir breyta

  1. . „Töpuðu 1,5 milljörðum vegna kennitöluflakks“. Morgunblaðið. 93 (129) (2005): 14.
  2. . „Nýtt líf á nýrri kennitölu“. Morgunblaðið. 92 (333) (2004): 8.
  3. 3,0 3,1 „Átak til að verjast kennitöluflakki“. Sótt 19. mars 2010.

Tenglar breyta

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.