Kastljós (fréttaskýringaþáttur)
- Fyrir greinina um þáttinn sem er í gangi í dag, sjá Kastljós (dægurmálaþáttur)
Kastljós var fréttaskýringaþáttur sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins frá 1974 til 1998. Hann hóf göngu sína sem fréttaskýringaþáttur um innlendar fréttir árið 1974 og tók þá við af þætti sem nefndist Landshorn. Þátturinn var um fjörutíu mínútna langur, í umsjón fréttastofunnar og sýndur á föstudögum á besta tíma. Umsjónarmenn voru mismunandi fréttamenn í hvert skipti. Annar þáttur á miðvikudögum fjallaði þá um erlendar fréttir. 1980 var þáttunum tveimur slegið saman í eitt Kastljós á föstudögum í umsjón tveggja stjórnenda. 1987 var þættinum aftur breytt í fréttaskýringaþátt um innlend málefni stutt skeið. 1988 hét þátturinn Kastljós á sunnudegi og 1990 Kastljós á þriðjudegi eftir breyttum útsendingartíma en 1992 var þátturinn aftur fluttur á besta tíma á föstudegi. 1993 var Kastljós tekið af dagskrá um skeið þegar dægurmálaþátturinn Dagsljós hóf göngu sína.