Karlalistinn í Reykjavík er stjórnmálaafl sem stofnað var árið 2018 í tilefni sveitarstjórnarkosninganna það ár. Flokkurinn bauð fram í Reykjavík. Stefnumál flokksins eru barnaverndarmál, innheimta meðlaga, félagsþjónusta, fjárhagsaðstoð, staða drengja í skólum og leikskólamál. Flokkurinn sagðist leggja áherslu á jafnréttisbaráttuna út frá reynslu feðra og til að mynda að fátækir feður verði studdir. Gunnar Kristinn Þórðarson, var oddviti Karlalistans. Á 25 manna framboðslista Karlalistans voru þrjár konur.[1]

Umfjöllun og umdeild mál

breyta

Mikið var fjallað um framboðslistann í kjölfarið á stofnun hans. Upp komu umdeild mál, sem orsökuðu brottför tveggja manna af listanum stuttu fyrir kosningar. Sá fyrsti til að yfirgefa listann var Stefán Páll Páluson, sem sat í 3. sæti, vegna þess að hann var enn á skilorði fyrir þjófnað[2]. Sá seinni til að yfirgefa listann fyrir kosningar var Kristinn Skagfjörð Sæmundsson, sem hafði hlotið 3. sætið eftir brottför Stefán Páls, en hann var rekinn úr Karlalistanum[3] vegna þess að Stundin fjallaði um ásakanir gegn honum í 71. tölublaði blaðsins. Í þeirri umfjöllun kom fram meðal annars að hann hefði verið ásakaður um ofbeldi gegn syni sínum[4]. Gunnar Waage, sem sat í 2. sæti listans, var einnig ásakaður um alvarleg brot í sama tölublaði Stundarinnar, þar á meðal fyrir að ryðjast inn í hús barnsmóður sinnar og hafa barn þeirra á brott[5]. Sama kvöld kom tilkynning frá Karlalistanum á Facebook síðu þeirra[6] um að Kristinn Skagfjörð Sæmundsson væri ekki lengur á lista, en að Karlalistinn stendur við bakið á Gunnar Waage.

Úrslit kosninga

breyta

Karlalistinn fékk 203 atkvæði, eða 0,3% atkvæða, sem var ekki nóg til að ná inn manni í borgarstjórn Reykjavíkur.[7]

Eftir úrslit kosninga

breyta

Þann 30. maí 2018 gerðu formaður, Gunnar Kristinn Þórðarson, og varaformaður, Gunnar Waage, tilkynningar[8][9] þess efnis að þeir höfðu sagt skilið við Karlalistann. Gunnar Kristinn tjáði vonbrigði sín með þátttöku umgengnisforeldra, sem hann taldi ekki hafa tekið nóg þátt né hafa sýnt áhuga á baráttunni þrátt fyrir 7 ára vinnu hans við málaflokkinn. Hann taldi einnig að úrslit kosninga hafi gefið skýrt til kynna að ekki hafi verið grundvöllur fyrir framboð af þessu tagi, og að áhugaleysi manna á málefninu hafi orsakað það að það var erfitt að fá menn á lista og til að kenna sig við framboðið.

Tilvísanir

breyta
  1. Leggja áherslu á jafnréttisbaráttu feðra Rúv, skoðað 15. maí, 2018
  2. Frambjóðandi í 3. sæti víkur af lista RÚV, 15. maí 2018
  3. Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar Stundin, 25. maí 2018
  4. Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“ Stundin, 25. maí 2018
  5. Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess Stundin, 25. maí 2018
  6. https://www.facebook.com/karlalistinn/posts/135346993998575
  7. https://www.mbl.is/frettir/kosningar/svf_results/ Kosninganiðurstöður á mbl.is
  8. https://www.facebook.com/gunnarkristinnt/posts/464066627378741 Tilkynning á Facebook síðu Gunnars Kristins, 30. maí 2018
  9. https://www.facebook.com/gunnar.waage/posts/1964901243522810 Tilkynning á Facebook síðu Gunnars Waage, 30. maí 2018