Kalli keisari (franska: L'Empereur Smith) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 45. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1976, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Le Journal de Tintin sama ár. Kalli keisari er fyrsta Lukku Láka bókin sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1977.

Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður

breyta

Karl Smith, vellauðugur bóndi í nágrenni Grasakaupstaðar (e. Grass Town), ímyndar sér að hann sé fyrsti keisari Bandaríkjanna. Bæjarbúar standa í þeirri trú að Kalli sé sauðmeinlaus og hafa gaman af uppátækjum hans, en Lukku Láka líst ekki á blikuna þegar hann sér að Kalli hefur í krafti auðs komið sér upp heilu herliði gráu fyrir járnum. Óbótamaðurinn Boggi Bulla kemst á snoðir um herstyrk Kalla og telur Kalla trú um að bæjarbúar Grasakaupstaðar hyggi á uppreisn gegn keisaradæminu. Þegar Boggi fær Kalla til að ráðast með her sínum á banka bæjarins grípur skelfing um sig í bænum. Lukku Láka tekst að flýja úr bænum, en þegar Kalli keisari gerir Grasakaupstað að höfuðborg Bandaríkjanna og efnir til stórdansleiks dulbýr Lukku Láki sig sem hirðþjón og rænir keisaranum. Boggi Bulla er þó ekki af baki dottinn og heldur með herinn til nágrannabæjarins Skammatanga til að ræna bankann þar.

Fróðleiksmolar

breyta
 
Joshua Norton, Kalli keisari
  • Persóna Kalla keisara er lauslega byggð á sérvitringnum Norton keisara (ca. 1818-1880). Norton, sem hét réttu nafni Joshua Abraham Norton og bjó í San Francisco í Kaliforníu, lýsti sjálfan sig keisara yfir Bandaríkjunum þrátt fyrir að vera alveg valda- og peningalaus eftir að hafa tapað aleigu sinni í viðskiptum. Norton naut engu að síður almennrar virðingar samborgara sinna og mikill fjöldi var viðstaddur útför hans árið 1880. Ein af hugmyndum Nortons var að reisa brú milli San Francisco og Oakland. Brúin, Bay Bridge, varð að veruleika eftir dauða Nortons keisara og nýlega var hleypt af stokkunum undirskriftarsöfnun á netinu til stuðnings því að endurnefna brúna í höfuðið á honum. Þegar þetta er ritað hafa yfir 5.000 manns skrifað undir.
  • Í sögulok biður Kalli keisari Lukku Láka að færa Grant forseta ríkisafsal sitt. Samkvæmt því gerist sagan í forsetatíð Ulysses S. Grant á tímabilinu 1869-1877.
  • Á dansleiknum á kránni er Kalli keisari kynntur fyrir hr. Giovanni Uderzo, sendiherra Viktors Emanúels II Ítalíukonungs. Svo vill til að Albert Uderzo, teiknari Ástríks gallvaska og samstarfsmaður Goscinny á þeim tíma þegar bókin kom út, átti ítalska foreldra.
  • Á veggjum krárinnar í Grasakaupstað hanga myndir af nöktum konum. Í fyrri bókum í bókaflokknum höfðu slíkar teikningar verið afmáðar af útgefanda áður en bækurnar birtust lesendum.
  • Grasakaupstaður ber ýmis önnur nöfn í íslensku þýðingu bókarinnar, t.d. Grasasnabær og Grasekkjubær.

íslensk útgáfa

breyta

Kalli keisari var gefin út af Fjölva árið 1977 í íslenskri þýðingu Þórs Stefánssonar. Þetta er fyrsta bókin í íslensku ritröðinni.