Justinianus 1.

(Endurbeint frá Justinianus mikli)

Flavius Petrus Sabbatius Iustinianus (48313. eða 14. nóvember 565), þekktur sem Justinianus 1. eða Justinianus mikli, var keisari Austrómverska keisaradæmisins á árunum 527565.

Justinianus 1.
Austrómverskur keisari
Valdatími 527 – 565

Fæddur:

483
í Tauresium í Illyríu

Dáinn:

13. eða 14. nóvember 565
í Konstantínópel
Forveri Justinus 1.
Eftirmaður Justinus 2.
Maki/makar Theodora
Faðir Sabbatius
Móðir Vigilantia
Fæðingarnafn Petrus Sabbatius
Keisaranafn Flavius Petrus Sabbatius Iustinianus
Ætt Justinianska ættin

Justinianus var fæddur Petrus Sabbatius inn í bændafjölskyldu af lágri stétt, en varð einn af æðstu embættismönnum ríkisins þegar móðurbróðir hans, Justinus 1., varð keisari árið 518. Justinus ættleiddi Petrus Sabbatius og gerði hann að erfingja sínum og tók hann sér þá nafnið Justinianus, sem hann er þekktur undir. Um 525 giftist Justinianus Theodoru, sem var fyrrum vændiskona og um 20 árum yngri en hann.

Justinianus varð keisari þegar Justinus lést árið 527. Valdatíð hans er einna helst minnst fyrir mikla hernaðarsigra sem gerðu honum kleift að innlima stór svæði í Vestur-Evrópu og Norður-Afríku sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Justinianus var þó ekki herstjórnandi sjálfur, heldur var það hershöfðinginn Belisarius sem vann flesta sigrana fyrir hann. Belisarius lagði undir sig konungsríki Vandala í Norður-Afríku, á tveimur árum, 533-534, og héldu Austrómverjar því svæði þangað til seint á sjöundu öld, þegar múslimar unnu það af þeim. Það tók mun lengri tíma að vinna konungsríki Austgota á Ítalíu, þar sem Belisarius og annar hershöfðingi, Narses, börðust í um tuttugu ár eða frá 535 til 554. Austrómverjar höfðu ítök á Ítalíuskaganum næstu aldirnar en yfirráðasvæði þeirra fór þó smám saman minnkandi. Justinianus sendi einnig herafla til Íberíuskagans, þar sem var konungsríki Vestgota, og var svæði á sunnanverðum skaganum lagt undir vald keisarans.

Justinianus lét gefa út mikinn lagabálk, sem kallaður er Corpus iuris civilis á latínu, og varð hann síðan grundvöllur laga í ríkinu eftir hans dag, sem og í mörgum öðrum ríkjum í Evrópu. Bálkurinn er safn laga og tilskipana frá Rómaveldi auk útskýringa. Justinianus stóð fyrir miklum byggingaframkvæmdum í Konstantínópel og víðar. Frægust þeirra bygginga sem risu á þessum tíma er án efa Hagia Sophia (eða Ægisif á íslensku) sem er eitt mikilfenglegasta dæmið um austrómverskan arkitektúr og verkfræði.

Mikil plága breiddist út um ríkið á valdatíma Justinianusar og varð að farsótt um mest alla Evrópu. Plágan hefur líklega dregið tugi milljóna manna til dauða, enda geisaði hún af og til í marga áratugi. Justinianus sjálfur fékk veikina en lifði af. Theodora, eiginkona Justinianusar, lést úr krabbameini árið 548. Eftirmaður Justinianusar var Justinus 2., sem var systursonur hans, en Justinianus átti engin börn.


Fyrirrennari:
Justinus 1.
Keisari Austrómverska ríkisins
(527 – 565)
Eftirmaður:
Justinus 2.