Jarþrúður Jónsdóttir

Jarþrúður Jónsdóttir (28. september 1851 – 16. apríl 1924) var íslensk kvenréttindakona og blaðamaður. Hún var um hríð ritstjóri kvenréttindablaðsins Framsóknar auk þess sem hún var fyrsta konan sem vann við þingskriftir á Alþingi.[1]

Æviágrip

breyta

Jarþrúður var dóttir háyfirdómarans Jóns Péturssonar og fyrri konu hans, Jóhönnu Bogadóttur. Móðir Jarþrúðar lést þegar Jarþrúður var ung og hún ólst upp með föður sínum og stjúpmóður.[2]

Jarþrúður gekk í skóla fyrir stúlkur í Reykjavík og dvaldi síðar við nám í Danmörku og Skotlandi. Þegar hún sneri heim til Íslands gerðist hún kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og varð þar fyrsta konan sem kenndi bóklegar námsgreinar. Auk kennslunnar í skólanum kenndi hún í heimahúsum frönsku, þýsku og ensku.[2]

Árið 1889 vann Jarþrúður við þingskriftir hjá Alþingi og var fyrsta konan sem starfaði hjá þinginu. Jarþrúður var ritstjóri kvenréttindablaðsins Framsóknar frá 1899 til 1901 ásamt Ólafíu Jóhannsdóttur. Hún skrifaði á sama tíma og þýddi greinar í dagblaðið Þjóðólf.[2] Jarþrúður var stofnmeðlimur og lengi ritari Hins íslenska kvenfélags og var auk þess lengi virk í Thorvaldsensfélaginu.[1]

Jarþrúður var gift Hannesi Þorsteinssyni þjóðskjalaverði. Hún gaf árið 1886 út Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir ásamt Þóru Pétursdóttur og Þóru Jónsdóttur og naut bókinn mikilla vinsælda.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Jarþrúður Jónsdóttir“. Konur og stjórnmál. Sótt 15. apríl 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Frú Jarþr. Jónsdóttir“. 19. júní. 1. júlí 1924. Sótt 15. apríl 2019.