Jarþrúður Jónsdóttir
Jarþrúður Jónsdóttir (28. september 1851 – 16. apríl 1924) var íslensk kvenréttindakona og blaðamaður. Hún var um hríð ritstjóri kvenréttindablaðsins Framsóknar auk þess sem hún var fyrsta konan sem vann við þingskriftir á Alþingi.[1]
Æviágrip
breytaJarþrúður var dóttir háyfirdómarans Jóns Péturssonar og fyrri konu hans, Jóhönnu Bogadóttur. Móðir Jarþrúðar lést þegar Jarþrúður var ung og hún ólst upp með föður sínum og stjúpmóður.[2]
Jarþrúður gekk í skóla fyrir stúlkur í Reykjavík og dvaldi síðar við nám í Danmörku og Skotlandi. Þegar hún sneri heim til Íslands gerðist hún kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og varð þar fyrsta konan sem kenndi bóklegar námsgreinar. Auk kennslunnar í skólanum kenndi hún í heimahúsum frönsku, þýsku og ensku.[2]
Árið 1889 vann Jarþrúður við þingskriftir hjá Alþingi og var fyrsta konan sem starfaði hjá þinginu. Jarþrúður var ritstjóri kvenréttindablaðsins Framsóknar frá 1899 til 1901 ásamt Ólafíu Jóhannsdóttur. Hún skrifaði á sama tíma og þýddi greinar í dagblaðið Þjóðólf.[2] Jarþrúður var stofnmeðlimur og lengi ritari Hins íslenska kvenfélags og var auk þess lengi virk í Thorvaldsensfélaginu.[1]
Jarþrúður var gift Hannesi Þorsteinssyni þjóðskjalaverði. Hún gaf árið 1886 út Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir ásamt Þóru Pétursdóttur og Þóru Jónsdóttur og naut bókinn mikilla vinsælda.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Jarþrúður Jónsdóttir“. Konur og stjórnmál. Sótt 15. apríl 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 „Frú Jarþr. Jónsdóttir“. 19. júní. 1. júlí 1924. Sótt 15. apríl 2019.