James Webb-geimsjónaukinn

James Webb-geimsjónaukinn er geimsjónauki sem var skotið á loft þann 25. desember 2021. Hann á að skoða myndun fyrstu vetrarbrautanna, læra meira um myndun stjarna og sólkerfa og greina andrúmsloft fjarpláneta. Hann getur skoðað ljós frá rauðu til mið-innrauðs ljóss (0,6–28,5 μm). Sjónaukinn er kældur niður í 50 K (-220 °C) til að tryggja bestu mögulegu gæði og verður staðsettur á L2-punktinum (stöðugt svæði þar sem þyngdarafl Jarðar og Sólar núllast út) í u.þ.b. 1.500.000 km fjarlægð. Sjónaukinn er samstarfsverkefni á milli NASA, ESA og CSA.

Tölvuteiknuð mynd af James Webb sjónaukanum

Koltvísýringur, CO2, hefur fundist í andrúmslofti á reikistjörnu utan okkar sólkerfis, þ.e. á fjarreikistjörnu, í fyrsta skipti með hjálp James Webb.[1]

James Webb tók mynd af stjörnuþokunum GLASS-z13 og síðar CEERS-93316, sem er með þeim lengstu í burtu sam náðst hafa á mynd. Ef mælingarnar eru staðfestar, þá er sú síðarnefnda lengst í burtu, og er þar með elsta efni sem sést hefur (eða elsta ljós frá því), þ.e. frá aðeins 235,8 milljónum ára eftir miklahvelli.

Sjónaukanum var skotið á loft 25. desember 2021 með Ariane 5-eldflaug frá Kouru, í Franska Gvæjana, og hann komst á áfangastað í janúar 2022. Fyrstu myndir úr sjónaukanum voru birtar almenningi 11. júlí 2022.

Sjónaukinn samanstendur af 18 sexhyrndum speglum gerðir út gull-húðuðu beryllíum, sem samanlagt mynda spegil sem er 6,5 metrar í þvermál, samanborið við 2,4 metra hjá Hubble sjónaukanum. Þetta gefur 25 fermetra svæði til að safna ljósi, eða sex sinnum stærra en hjá Hubble. Ólíkt Hubble, sem sér nær-útfjólublátt- og sýnilegt ljós (0,1 to 0,8 μm), og nær-innrautt (0,8–2,5 μm), notar James Webb lægri tíðnissvið, frá langbylgju sýnilegu ljósi (rauðu) upp í mið-innrautt (0,6–28,3 μm). Það þarf að halda sjónaukanum mjög köldum, undir 50 K (−223 °C), svo að innrauða ljósið sem sjónaukinn sjálfur gefur frá sér trufli ekki ljósið sem sem hann á að safna.

Til samanburðar er Gran Telescopio Canarias stærsti sjónauki í heiminum 2022, því sjónaukar á jörðu niðri eru almennt séð stærri (eða auðveldara að gera stærri, og þurfa líka að vera það út af verri aðstæðum á jörðu niðri), 10,4 m í þvermál með 36 sexhyrndum speglahlutum (aðrir sjónaukar fara t.d. upp í 91 speglahlut). Það eru þó líka til sjónaukar sem eru tveir-í-einum, þar sem hver er minni, en virka sem einn enn stærri, t.d. Large Binocular Telescope, sem virkar eins og einn 11,8 m kringlóttur, eða sem 22,8 m breiður.

Aðrar tegundir af sjónaukum eru t.d. International Liquid Mirror Telescope (og Large Zenith Telescope), en sjónaukar gerðir úr speglum með fljótandi málmi, kvikasilfri, hafa ákv. kosti. Lagt hefur verið til að skjóta þannig sjónauka út í geim, og jafnvel staðsetja á tunglinu, og myndi geta séð hluti 100 sinnum daufari en James Webb.[2]

Heimildir breyta

  1. „NASA's Webb Detects Carbon Dioxide in Exoplanet Atmosphere“ [Webb sjónauki NASA finnur koltvísýring í andrúmslofti fjarreikistjörnu]. WebbTelescope.org (enska). Sótt 29. ágúst 2022.
  2. Dorminey, Bruce. „Liquid Mirror Telescope Technology Finally Going Mainstream“ [Fljótandi-spegla sjónaukatækni loksins að verða almenn]. Forbes (enska). Sótt 29. ágúst 2022.