Jökulsstaðir

(Endurbeint frá Jökulstaðir)

Jökulsstaðir í Vatnsdal, einnig þekkt sem Tunga eða Tunga hinn efri er fornt eyðibýli frá landnámsöld. Samkvæmt Vatnsdælasögu byggði Jökull Ingimundarson, sonur Ingimundar gamla þar bæ sinn.

Bærinn liggur upp á meltagli sunnan ofan við bæinn í Þórormstungu og eru þar fornar bæjartóftir. Þaðan er víðsýnt um allan Vatnsdal og út í Þing. Á Jökulsstöðum er að finna tóftaleifar og garðlög í kring sem verið hafa utan um tún á bænum Má ætla að bæjarhóllinn geymi menjar fornbýlis en ljóst er að byggingar frá síðari öldum hafa staðið á hólnum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir um Jökulsstaði að þar sé "fornt eyðiból [sem] hefur um langan aldur aldrei byggt verið. Þar er nú stundum stekkur, stundum fjárhús frá heimajörðinni".

Haustið 2004 fór fram minni háttar fornleifakönnun á staðnum þegar snið var tekið í gegnum túngarðinn. Var markmiðið að greina aldur hans út frá gjóskulögum. Virðist vera um tvö byggingarstig að ræða. Í torfi eldra lagsins var að finna hið svokallaða landnámslag frá 871 e.Kr. og er garðurinn því yngri en það. Í torfi yngra byggingarskeiðsins var gosaska úr Heklu frá 1104 e.Kr. og hefur garðurinn því verið gildaður upp eftir það gos. Enga gosösku var að finna ofan við garðinn. Minjarnar voru friðlýstar af þjóðminjaverði árið 1930.

Söguskiltið er við veginn sem liggur inn í Kárdalstungu, innst í Vatnsdal. Stutt gönguleið er að rústunum sem eru upp á meltaglinu þar fyrir ofan.