Jón hrak
Jón hrak var íslensk þjóðsagnapersóna sem var sagður hafa verið óbótamaður í lifandi lífi, en eftir dauða hans var hann lagður þversum í gröf við Skriðuklaustur (suður-norður). Var hann jarðaður þannig til þess að hann lægi kyrr og gerði engum mein. Hans er samt hvergi getið í kirkjubókum. Fræg vísa segir frá Jóni hrak, sem er þannig:
- Kalt er við kórbak,
- kúrir þar Jón hrak.
- Ýtar snúa austur og vestur
- allir, nema Jón hrak,
- allir, nema Jón hrak.
Stephan G. Stephansson orti um Jón hrak, heilt kvæði. Þar segir til dæmis:
- Kirkjubækur þar um þegja -
- þó er fyrst af Jóni að segja,
- hann skaust inn í ættir landsins
- utanveltu hjónabandsins.