Jón Loftsson (prestur í Vatnsfirði)
Jón Loftsson (d. um 1606) var prestur á Mosfelli í Grímsnesi, Útskálum í Garði, Görðum á Álftanesi og seinast í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp um þrjátíu ára skeið en var þá settur af fyrir embættisafglöp. Hann var prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi og Strandaprófastsdæmi. Hann var einnig skólameistari í Skálholti um tíma.
Faðir Jóns var Loftur Jónsson, sunnlenskur bóndi, móðurbróðir Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups, en móðir hans er óþekkt. Jón var orðinn prestur á Mosfelli í Grímsnesi 1555. Hann var talinn einn helsti prestur sunnanlands og þegar Ólafur danski, fyrsti skólameistari í Skálholti, drukknaði í Brúará var Jón settur til að gegna starfinu og var því fyrsti íslenski skólameistarinn. Hann þótti þó ekki nógu lærður til að gegna því embætti og var því fenginn skólameistari frá Danmörku, Hans Lollich.
Jón varð svo prestur á Útskálum 1560 en var þar aðeins í tvö ár og fór að Görðum á Álftanesi 1562. Þar var hann líka aðeins tvö ár og varð þá prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var jafnframt prófastur í bæði Ísafjarðarprófastsdæmi og Strandaprófastsdæmi og árið 1566 sendi hann öllum prestum á Vestfjörðum alvarlegt áminningarbréf.
Séra Jón þótti nokkuð sérkennilegur í háttum á efri árum og „upp á fornan sið“. Hann gaf sig sjálfur saman í hjónaband við þriðju og seinustu konu sína, Guðrúnu Sigurðardóttur, um 1593. Fyrir það var hann settur úr embætti 1595 og þurfti að víkja sárnauðugur frá Vatnsfirði fyrir Gísla Einarssyni, bróður Odds biskups, og var talið að bölbænir hans hefðu orðið að áhrínsorðum því séra Gísla búnaðist illa í Vatnsfirði.
Jón lifði í rúman áratug í viðbót, var hjá syni sínum í Þernuvík og dó þar, líklega 1606. Hann var þríkvæntur sem fyrr segir og var fyrsta kona hans Guðríður Jónsdóttir, önnur Sigríður Grímsdóttir en sú þriðja Guðrún Sigurðardóttir áður nefnd.