Hvítöl

(Endurbeint frá Jólaöl)

Hvítöl er dökkt yfirgerjað léttöl af dönskum uppruna. Það er með áfengisinnihald undir 2,5% og gert með því að meskja maltið við mjög háan hita (76-78°C). Það skapar mikið af ógerjanlegum sykrum sem verða eftir sem sæta í ölinu þegar gerjun er lokið, en að sama skapi lítið af gerjanlegum sykrum sem gerið getur breytt í áfengi. Nafnið er dregið af því að ölið var búið til með „hvítu malti“, þ.e. malti sem var þurrkað rétt áður en hvítar spírurnar í byggfræjunum urðu grænar. Það þekkist í Danmörku frá 15. öld. Hefð er fyrir því í Danmörku að drekka hvítöl á jólum og hefur sú hefð meðal annars borist til Íslands. Í Danmörku er hvítöl því stundum markaðssett fyrir jólin sem „nisseøl“ en á Íslandi er það kallað jólaöl.

Danskt hvítöl

Á Íslandi framleiddi Ölgerðin Egill Skallagrímsson hvítöl frá stofnun fyrirtækisins 1913 fram til ársins 2020.[1] Fram undir 1980 var nýbrugguðu hvítöli tappað á brúsa sem viðskiptavinir komu sjálfir með í ölgerðina fyrir jólin þegar hvítölið var selt sem „jólaöl“. Sumir litu jafnvel á það sem ómissandi hluta af jólaundirbúningnum að standa í biðröð fyrir utan brugghús Ölgerðarinnar á Njálsgötu með brúsa í hendi síðustu dagana fyrir jól.

Flæmska brúnölið oud bruin er skyld tegund af dökku öli með lítið áfengisinnihald en sem er yfirleitt látið þroskast á flöskum meðan hvítöl er oftast selt nýtt.

Heimildir

breyta
  1. „Hvítölið úr sölu eftir meira en öld“. RÚV. 18. nóvember 2020. Sótt 18. nóvember 2020.

Tenglar

breyta