Járnþríhyrningurinn (stjórnmál)

Járnþríhyrningurinn er hugtak notað í stjórnmálafræði sem lýsir ákveðnu sambandi sem ríkir milli þjóðþings, framkvæmdavalds og hagsmunaaðila. Gott dæmi um þetta fyrirbæri má finna í bandarískum stjórnmálum en þar samanstendur járnþríhyrningurinn af:

  1. hinum ýmsu þingnefndum sem koma beint að úthlutun fjármagns vegna opinberra aðgerða og hafa yfirumsjón með þeim
  2. alríkisstofnunum eða ráðuneytum sem gjarnan eru sjálfstætt starfandi en lúta þó valdi forseta. Slíkar stofnanir hafa umsjón með að framfylgja lögum og reglugerðum fyrir tiltekinn geira og eru ábyrg fyrir stefnumótun innan hans
  3. viðkomandi iðnaði ásamt hagsmunasamtökum hans og þrýstihópum sem sækjast eftir auknum umsvifum í viðkomandi geira, oft í samvinnu við hið opinbera t.d. vegna ríkiskaupa á vörum og þjónustu.

Oftar en ekki er hergagnaiðnaðurinn notað sem skýrasta dæmið um járn-þríhyrninginn í bandarískum stjórnmálum. Þar eru það þjóðþingið, hergagnaframleiðendur og varnarmálaráðuneytið sem mynda járnþríhyrninginn. Hugtakið er einnig víða notað utan Bandaríkjanna og er þannig mikilvægt í stjórnmálaumræðu víðs vegar um heim.

Annað nærtækt dæmi um járnþríhyrninginn er að finna innan Evrópusambandsins. Samanstendur járn-þríhyrningurinn þar af landbúnaðarráðherrum aðildarríkja sambandsins, embættismönnum innan framkvæmdastjórnar ESB og loks hinum ýmsu svæðisbundnu hagsmunaaðilum innan landbúnaðargeirans í Evrópu en háværir franskir og þýskir aðilar hafa þar umtalsverð áhrif. Sá þrýstihópur barðist lengi vel hatrammlega gegn umbótum í landbúnaðarstefnu ESB og gátu takmarkaðar breytingar aðeins átt sér stað árið 1992 en landbúnaðarstefna ESB þykir ennþá einkennast af verndarsjónarmiðum valdamestu ríkjanna.

Heimildir breyta

   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.