Írókesar
Írókesar, einnig þekktir sem Haudenosaunee, eru sögulega mikilvægt bandalag frumbyggja í norðausturhluta Norður-Ameríku sem tala ýmis írókesamál. Á nýlendutímanum kölluðu Frakkar þá „Írókesasambandið“ eða „Írókesabandalagið“ en Englendingar „þjóðirnar fimm“ og síðar (eftir 1722) „þjóðirnar sex“ sem náði yfir móhíkana, ónondaga, óneida, kajúga, seneka og tuskaróra.
Bandalagið varð til einhvern tíma á 15. eða 16. öld. Samkvæmt sögnum voru það höfðingjarnir Hiawatha og Dekanawida sem upphaflega sömdu um frið milli þjóðanna. Það varð fljótt öflugasta bandalag frumbyggjaþjóða í norðausturhluta Ameríku. Árið 1609 hófu þeir Bjórstríðin gegn frönskum landnemum og húronum sem voru bandamenn þeirra. Stríðin stóðu allan fyrri hluta 17. aldar en þrjár af þjóðunum sömdu um frið við Frakka árið 1665 eftir að bólusótt hafði komið upp nokkrum sinnum meðal þeirra. Í Stríði Vilhjálms konungs 1688 til 1697 gerðu írókesar bandalag við Englendinga gegn Frökkum og í stríðum Frakka og indíána á 18. öld stóðu þeir áfram með Englendingum þótt oft reyndi á samkomulagið. Þegar Bandaríska frelsisstríðið hófst reyndu þeir upphaflega að halda hlutleysi en brátt tóku tuskarórar og óneidar upp málstað nýlendnanna meðan hinar þjóðirnar voru áfram trúar bandalaginu við Bretland. Móhíkanahöfðinginn Joseph Brant leiddi þannig margar herfarir gegn bandarískum uppreisnarmönnum. Eftir stríðið settust margir írókesar að á Grand River-verndarsvæðinu á norðurströnd Erie-vatns í Kanada.
Í gegnum hernám og fólksflótta hafa margar frumbyggjaþjóðir orðið hluti írókesa í gegnum tíðina. Árið 2010 töldust 45.000 Kanadabúar og yfir 80.000 Bandaríkjamenn til írókesa.