Hvítsaumur

Hvítsaumur er útsaumur í hvítt hörléreft með hvítum hörþræði. Hvítsaumur var vinsæll útsaumur á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Sá útsaumur hefur þróast frá hvítsaum danskra bændakvenna eins og tíðkaðist á árunum 1780 - 1840 á svæðinu Hedebo í nágrenni Kaupmannahafnar. Íslenskar stúlkur fóru til Danmerkur og lærðu þar hannyrðir. Ein þeirra var Þóra Pétursdóttir Thoroddsen en hún stofnaði teikniskóla í Reykjavík 1883 með Sigríði Jónassen. Hvítur hör var tákn hreinleika í messuskrúðum og altarisklæðum. Hvítur útsaumur á rætur allt til Endurreisnarinnar á Ítalíu. Á Endurreisnartímanum varð línrækt almenn um alla Evrópu og konur og karlar fóru að klæðast fatnaði úr hör og hvítum undirfatnaði. Á tímabilinu 1560 - 1580 urðu knipplingar eftirsóttir sem hluti af tískufatnaði yfirstéttar í Evrópu. Knipplingar og knipplingasaumur voru stöðutákn og margir höfðu atvinnu af slíkum útsaumi. Með frönsku stjórnarbyltingunni [1789] lagðist þessi listiðnaður nánast af hvað knipplinga og knipplingasaum varðar en hvítsaumur hrundi ekki eins mikið og íburðarmikill útsaumur. Útsaumur í hvítt lín náði mestri útbreiðslu frá miðri 16. öld og til byrjun 17. aldar. Útsaumaðir hvítir vasaklútar hefðarkvenna "Ziertaschentücher" voru stöðutákn og við upphaf 19. aldar varð útsaumur almenningseign og hluti af listsköpun ört vaxandi borgarastéttar.

Hedebo hvítsaumur

Um 1900 varð hreyfing í Danmörku að endurvekja hvítsaum og fágað handverk sem mótvægi við iðnvæðingu. Þóra Pétursdóttir Thoroddsen tók þátt í því en hún ferðast um Danmörku með Nönnu Pind til að safna heimildum um handavinnugerðir fyrri tíma. Dönskum hvítsaumi er skipt tvo aðalflokka: Hedabo útsaum og Amager útsaum.

Úttalinn flatsaumurBreyta

Úttalinn flatsaumur (d. tællesyning) er ein elsta gerð hedebo-hvítsaums og var saumaður á Hedebo svæðinu frá 1780 - 1840. Í Danmörku var slíkur flatsaumur nefndur danskur saumur en einnig klaustursaumur.

Úrdráttarsaumur (línsprang)Breyta

Úrdráttarsaumur eða línsprang (d. dragverk) er einnig meðal elstu útsaumsforma hedebo- hvítsaums og var saumaður á tímabilinu 1800-1830 í Hedebo. Hann var saumaður með hvítum hörþræði í hvítt hörléreft og voru þræðir raktir úr léreftinun svo það mynduðust bekkir, ferningar og krosslaga fletir. Í Danmörku var úrdráttarsaumur notaður á skrauttjöld sem notuð voru til hátíðabrigða í betri stofum og hafðar í milliverkum skrautpúða.

Hvítsaumur með keðjusaum (lykkjuspori)Breyta

Upp úr 1830 fóru mynstur og tækni að breytast og farið var að teikna frjálsa uppdrætti og blómamynstur á sjálft léreftið og hvítsaumur varð til, blómamynstur tóku við af ferhyrndum formum og lykkjuspor kom fram. Þetta lykkjuspor gaf saumnum sérstakan blæ og var þannig hvítsaumur nefndur keðjusaumur eða lykkjusaumur (d. maskesyning). Helstu einkenni þessa hvítsaums eru frjáls mynstur, oft samhverf út frá miðju og úr stílfærðum blómum, blöðum og leggjum sem umlykja hvítsaumsgrunna. Upp úr 1840 fór hvítsaumurinn að breytast og auk lykkjuspors eru saumuð í sama verk flatsaumur, leggsaumur, tunguspor, krókspor, fræhnútar og krosssaumur.

Baldýring með hvítu garniBreyta

Þegar bómullargarn kom á markað var það notað í staðinn fyrir handspunna línþráðinn og þá þróast Hedebo- hvítsaumur yfir í baldýringu. Baldýring þróaðist úr hvítsaumi og kniplingasaumi og var saumuð í hvítt áteiknað hörefni með hvítu língarni eða hvítu bómullargarni.

Heðibú úrkippiaðferðBreyta

Upp úr 1850 var farið að klippa göt á efni í staðinn fyrir að draga út þræði og breyttust mynstrin og urðu stórgerð og einföld. Þessi útklippiaðferð var á íslensku nefnd heðibú en á dönsku udklipshedebo. Algengt form í hedebo hvítsaumi voru túlipani, stjörnulega rósetta og lilja.

HeimildirBreyta