Hrossafallsvetur
Hrossafallsvetur var heiti sem haft var um harðindavetur sem var á Íslandi árið 1313. Þá var hallæri og fjárfellir um allt land og miklar frosthörkur, svo að „fraus fætur undan nautum og hestum, þó fullfeitir væri að holdum“.
Snjóþungt var um allt land og Gottskálksannáll segir að fjárfellir hafi verið svo mikill á Íslandi að víða um sveitir urðu menn snauðir að kvikfé og mest þó hrossum.