Holger Peter Clausen

Holger Peter Clausen (1. ágúst 183129. maí 1901) var íslenskur kaupmaður og alþingismaður sem fór víða og dvaldist meðal annars um árabil í Ástralíu.

Hann var fæddur í Ólafsvík og voru foreldrar hans Hans Arreboe Clausen, etatsráð og stórkaupmaður, sonur Holgers Peter Clausen kaupmanns frá Danmörku og Valgerðar Pétursdóttur, og kona hans Ása Óladóttir Sandholt.[1] Hann ólst upp á Íslandi til tíu ára aldurs en dvaldist með foreldrum sínum í Kaupmannahöfn frá 1841. Átján ára að aldri hélt hann til Ástralíu og vann þar við gullgröft og fleira til 1853. Hann var síðan við kaupskap í Liverpool til 1859 og í Kaupmannahöfn 1859 – 1862 og fór þá meðal annars kaupferðir til Íslands. Hann fór aftur til Ástralíu 1862 og var þar til 1870 við kaupmennsku en hélt þá til Íslands og gerðist kaupmaður í Ólafsvík og á Búðum. Árið 1879 flutti hann til Stykkishólms og var þar til 1897 en dvaldi síðan í Reykjavík til æviloka. Hann var alþingismaður Snæfellinga frá 1880 til 1885.

Hann kvæntist í Ástralíu og hét kona hans Harriott Barbara Cook. Hún lést þar og börn þeirra fjögur ólust öll upp í Ástralíu og settust þar að. Hann giftist öðru sinni 1881 Guðrúnu Þorkelsdóttur, dóttur Þorkels Eyjólfssonar prests á Staðastað og systur Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar. Á meðal barna þeirra voru Oscar Clausen rithöfundur og Arreboe Clausen, faðir Arnar og Hauks Clausen.

Tilvísanir breyta

  1. Niðjatal Jóns Ólafssonar Indíafara.

Heimildir breyta

  • „Æviágrip á vef Alþingis. Skoðað 7. maí 2011“.
  • „Arreboe Clausen minning. Morgunblaðið, 19. nóvember 1956“.