Hof er bær í austanverðum Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, stórbýli að fornu og nýju og landnámsjörð Ingimundar gamla Þorsteinssonar, eftir því sem segir í Landnámabók og Vatnsdæla sögu.

Hof í Vatnsdal árið 2007.
Hof í Vatnsdal - niðri til hægri

Bærinn á Hofi er miðsvæðis í dalnum í skjólgóðum hvammi milli Hofsmela og Kötlustaðamela, sem kenndir eru við eyðibýlið Kötlustaði. Á heiðnum tíma var þar eitt þriggja höfuðhofa í Húnaþingi og í Melabók Landnámu segir að það hafi verið stærsta hof landsins ásamt hofinu á Hofi á Kjalarnesi en stærðartölurnar sem þar eru gefnar upp fá þó vart staðist. Norður af bænum er hóll sem heitir Goðhóll og er sagt að hofið hafi verið þar. Hof er nefnt í Sturlungu, bæði í Þórðar sögu kakala og Prestssögu Guðmundar góða en samkvæmt henni var Guðmundur staddur á Hofi haustið 1200.

Kirkja var á Hofi til forna og var hún helguð Jóhannesi guðspjallamanni. Hun er nefnd í Landnámu og segir þar frá því að Þorkell bóndi á Hofi hafi tekið skírn af Friðriki biskupi og allir Vatnsdælir einnig og hafi Þorkell látið reisa kirkju á Hofi. Samkvæmt nýlegum fornleifarannsóknum á Hofi var þar kirkjugarður að minnsta kosti frá því fyrir 1104. Árið 1706 var enn hálfkirkja á Hofi og var henni þjónað frá Undirfelli. Ekki er vitað hvenær kirkjan lagðist af.

Á Hofi var Kvennaskóli Húnvetninga 1882-1883 en var þá sameinaður Kvennaskóla Skagfirðinga og fluttur að Ytri-Ey á Skagaströnd.

Heimildir

breyta
  • Fornleifaskráning Húnavatnshrepps. Hvammur - Hof - Saurbær - Brúsastaðir. Byggðasafn Skagfirðinga, rannsóknarskýrslur, 2009/99.
  • „Blaðað í örnefnaskrá. Lesbók Morgunblaðsins, 13. nóvember 1966“.