Helgi Hallgrímsson

Helgi Hallgrímsson (f. 1935) er íslenskur náttúrufræðingur. Hann hlaut Hin íslensku bókmenntaverðlaun árið 2011 fyrir Sveppabókina sína, og árið 2014 var hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf sín og rannsóknir á íslenskri náttúru.[1]

Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur á heimili sínu á Egilsstöðum.

Helgi Hallgrímsson fæddist árið 1935 í Holti í Fellum og ólst upp á Arnheiðarstöðum og Droplaugarstöðum í Fljótsdal. Stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1955. Nam líffræði, með grasafræði sem aðalgrein, við háskóla í Göttingen og Hamborg 1955–1963. Kennari við Alþýðuskólann á Eiðum 1957-1958 og Menntaskólann á Akureyri 1959–1969. Forstöðumaður við Náttúrugripasafnið á Akureyri 1964–1987 og rannsóknastöðina Kötlu á Árskógsströnd 1970–1979. Hefur fengist við margskonar rannsóknir á náttúru Íslands, aðallega vatnalífi og sveppaflóru landsins og ritað bækur um þau efni: Sveppakverið (1979) og Veröldin í vatninu (1979, 1990), auk fjölda greina í blöðum og tímaritum. Komið hafa út eftir Helga þrjár stórar bækur hin síðari ár. Árið 2005 kom stórbókin Lagarfljót-mesta vatnsfall Íslands út, árið 2010 kom út Sveppabókin, íslenskir sveppir og sveppafræði og hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka 2011. 2016 kom svo út bókin Fljótsdæla, mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi. Nýjust er bókin Vallastjörnur – einkennisplöntur Austurlands sem kom út árið 2017.  

Helgi stofnaði og stýrði Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi 1969–1980 og Vísindafélagi Norðlendinga 1970–1975. Stofnandi og ritstjóri Týlis – tímarits um náttúrufræði og náttúruvernd 1971–1985 og í ritstjórn Glettings, tímarits um austfirsk málefni 1991–2002. Hefur beitt sér fyrir verndun náttúrunnar á ýmsum vettvangi og er mikill skógræktarmaður. Búsettur á Egilsstöðum frá 1987. Helgi var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 2014 fyrir ritstörf og rannsóknir á íslenskri náttúru.

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Níu sæmdir íslensku fálkaorðunni“. www.mbl.is. Sótt 18. júní 2019.