Handlína er klútur sem borinn er við gamla íslenska faldbúninginn og látinn hanga við beltið. Þegar konur gengu til altaris var handlínan lögð yfir hendurnar en einnig eru sagnir af því að börn hafi verið lögð í handlínur þegar þau voru skírð. Á gömlum myndum af faldbúningnum sést handlínan oft vel, t.d. á mynd Auguste Mayers af Málfríði Sveinsdóttur, sem birtist í lýsingu á ferð Paul Gaimard til Íslands 1836.

Mynd Mayers af Málfríði Sveinsdóttur.

Á Þjóðminjasafni Íslands eru allmargar útsaumaðar handlínur. Þær eru flestar úr hvítum hör og fagurlega skreyttar með útsaumi, ýmist hvítum eða mislitum. Útsaumsgerðirnar eru allmargar og mynstrið er ýmist talið út eða saumað eftir uppdrætti sem þrykkt er á dúkinn. Myndefnið er af ýmsu tagi, blóm, fuglar, krossmörk og ýmsir mynsturbekkir, en einnig eru brot úr sálmi eða bæn stundum saumuð í handlínurnar. Handlínur eru yfirleitt u.þ.b. 60 cm á kant og á einu eða fleiri hornum eru stundum dúskar sem hægt er að nota til að tylla þeim við beltið á faldbúningnum.

Handlínur úr silki munu einnig hafa verið algengar og af þeim er talsverður fjöldi á Þjóðminjasafninu og einnig á byggðasöfnum, t.d. í Skógum.

Heimildir

breyta

Elsa E. Guðjónsson. 1986. Hefur saumað hvert eitt spor. Krossspor Hólmfríðar Pálsdóttur. Hugur og hönd 1986, bls. 18-21.

Kristín Bjarnadóttir. 2016. Handlína. Í: Svanhildur Gunnarsdóttir og Þórður Ingi Guðjónsson, ritstj. Konan kemur við sögu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.

Sigrún Helgadóttir. 2013. Faldar og skart. Opna, Reykjavík.

Tenglar

breyta