Hallmundur jötunn

Hallmundur jötunn er ekki nefndur í Snorra-Eddu en hann er að góðu kunnur úr Grettis sögu og úr Bergbúaþætti. Hallmundarhraun og Hallmundarhellir heita eftir honum. Ættir Hallmundar meðal jötna eru ekki þekktar. Í Grettis sögu er hann ærið mennskur í hátt og skáld gott. Þeir Grettir áttu í glettingum hvor við annan á Kili og Hallmundur kom honum seinna til hjálpar í átökum við byggðamenn. Þá bjó hann í helli miklum ekki langt frá Balljökli, þ.e. Eiríksjökli. Ýmsir hafa talið að hann hafi búið í Hallmundarhelli og byggja þá skoðun á lýsingum Grettlu á híbýlum Hallmundar. Grettir dvaldi í hellinum um hríð með Hallmundi og dóttur hans. Seinna lenti Hallmundur í átökum við Grím frá Kroppi og fékk banasár. Grímur elti hann í hellinn þar sem Hallmundur kvað kviðu um ævi sína og andaðist eftir það.

Í Bergbúaþætti segir frá mönnum sem voru á ferðalagi og villtust af leið í illviðri en fundu þá helli og leituðu þar skjóls að kvöldi. Um nóttina kom jötunn sem bjó innar í hellinum til þeirra og kvað fyrir þá langt kvæði og bað þá að læra það og muna, sem þeir gerðu. Þetta var Hallmundur sjálfur. Kvæðið nefnist Hallmundarkviða og er bæði sérstætt og merkilegt. Í því er elsta lýsing á eldgosi í íslenskum bókmenntum en þar segir frá því er Hallmundarhraun rann frá gígum sínum upp við Langjökul og niður í byggð í Borgarfjarðardölum og olli miklum usla. [1][2]

HeimildirBreyta

  1. Árni Hjartarson (2014). „Hallmundarkviða. Eldforn lýsing á eldgosi“. Náttúrufræðingurinn (84): 27–37.
  2. Árni Hjartarson (2015). „Hallmundarkviða. Áhrif eldgoss á mannlíf og byggð í Borgarfirði“. Náttúrufræðingurinn (85): 60–67.
   Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.