Húsið (Eyrarbakka)

Húsið á Eyrarbakka er sögufrægt hús á Eyrarbakka sem hýsir nú Byggðasafn Árnesinga en var áður bústaður kaupmanna.

Húsið á Eyrarbakka

Húsið er með merkustu húsum landsins og er svartbikað timburhús af bolhúsgerð með bárujárnsþaki. Jens Lassen kaupmaður lét reisa húsið árið 1765. Húsið stendur við Eyrargötu 50 litlu austar við Eyrarbakkakirkju. Áfast við Húsið með tengibyggingu er málað timburhús, Assistentahúsið en það var reist rúmri öld síðar eða árið 1881. Assistentahúsið er timburhús af bindingsverki. Upphaf Hússins má rekja til fastrar búsetu danskra kaupmanna en áður höfðu þeir aðeins dvalið að sumarlagi á Íslandi. Flestir íbúar Hússins fram til ársins 1919 voru danskir. Húsið var flutt tilsniðið til landsins. Veggir eru gerðir úr þykkum, mótuðum trjástokkum sem klæddir eru að utan með súð. Skorsteinn og eldstæði voru hlaðin úr steini. Í Assistentahúsinu bjuggu verslunarþjónar Lefolii-verslunarinnar.

Guðmundur Daníelsson rithöfundur bjó í því um nokkurn tíma á fimmta áratug 20. aldar og skrifaði þar sjö bækur. Guðmundur lánaði Halldóri Laxness húsið árið 1945 og þar skrifaði hann „Eldur í Kaupmannahöfn”.

Heimildir breyta