Hótel Winston var hótel við Nauthólsvík í Reykjavík reist af breska hernum árið 1942 til 44 í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Það var úr 3 braggasamstæðum, 8, 2 og 2, eða samtals 12 bröggum, með allt að 100 herbergjum, stærri og smærri, auk 28 snyrti- og hreinlætisherbergja. Veitingasalur og stór setustofa voru einnig á Hótel Winston.[1] Hótelrekstur var í húsnæðinu í um það bil einn áratug eða frá því það var reist til 1951. Gekk hann þó á þeim tíma undir fleiri nöfnum en Hótel Winston eins og Transit Camp, Hótel Ritz og Flugvallarhótelið í Reykjavík.

Saga hótelsins

breyta

Upphaflega var formlegt heiti þess Transit Camp. Sagt er að Winston Churchill hafi heimsótt hótelið þegar hann kom í dagsferð til Reykjavíkur árið 1941 og var það því nefnt Hotel Winston í höfuðið á honum en þetta er líklega flökkusaga enda húsnæðið sem þar er nú byggt ári síðar. Svo virðist sem hótelið hafi verið með stærri gististöðum landsins en svo segir um það þegar Breski herinn kvaddi landið: „Hinn 23. Apríl 1946 kvaddi breski flugherinn í fjölmennu skilnaðarhófi að Hótel Winston (sem var að sumra sögn "stærsta gistihús landsins") við flugvöllinn í Reykjavík“[2]

Eftir að Breski herinn fór tók flugvallarstjórnin við rekstri hótelsins og hélt nafninu Hotel Winston. Voru margir ósáttir við að erlendu nafni hótelsins væri haldið en flugvallastjórn upplýsti að um það hafði hún gert samning við Breta.[3] Auglýsti síðan flugmálstjórn þann 1.ágúst 1946: „Hotel Winston á Reykjavíkurflugvellinum mun frá og með 1. ágúst n. k. veita gistingu og selja veitingar til allra innlendra og erlendra flugfarþega, sem til Reykjavíkur koma.“ En þá var Reykjavíkurflugvöllur millilandaflugvöllur Íslands og því þessi þjónustubygging einskonar andlit landsins fyrir erlenda gesti þess.

Hótelreksturinn gekk þó brösuglega og illa gekk að halda húsakynnunum við. Lýstu sem dæmi Norskir blaðamenn dvöl sinni þar í mars 1947: „Þeir sögðu að það væri sú ógeðslegasta vistarvera, sem þeir hefðu nokkru sinni fyrir hitt og bættu því við, að ef þeir hefðu vitað áður en þeir fóru, að þeir ættu að gista á slíkum stað, þá hefðu þeir aldrei farið hingað. Það lak inn á þá í rúmunum og þeir voru blautir. Allt var eftir þessu. Ég held að betra sé að hafa ekkert hótel en svona hótel og þess verður að krefjast að það sé lagt niður tafarlaust.“[4]

Nánari lýsing á aðbúnaðinum og húsakynnunum birtist svo í Morgunblaðinu 30 mars 1947: „Það hefir kanski einhverjum þótt fengur í að fá þessa kofa á flugvöllunum, sem byggðir voru til bráðabirgða í styrjöldinni, en það mun koma á daginn, að þeir verða okkur dýrir í rekstri og kanski ennþá dýrari, en þó ráðist hefði vorið í að byggja sæmilega mannabústaði og skrifstofubyggingar, sem nauðsynlegt er á hverjum flugvelli. 10 þús. kr. kola- reikningur á mán. Norðurlandamennirnir, sem bjuggu að Hótel Winston á Reykjavíkurflugvellinum á dögunum kvörtuðu sáran er heim kom yfir kulda og vosbúð. Það lak inn á þá í rúmunum og þeir hríðskulfu þótt þeir klæddu sig í yfirhafnir sínar áður en þeir gengu til sængur á kvöldin. Og þeir, sem þekkja Winston og aðbúnaðinn þar vita að þetta eru engar ýkjur. Það eru 68 herbergi í þessu gistihúsi, ef svo skyldi kalla og hvert og eitt einasta hriplekur. En ekki vantar að reynt sje að hita upp gistihúsið, því undanfarna tvo mánuði hefir kolareikningurinn í Winston verið 10—11 þús. kr. á hverjum mánuði. Og það er ekki nóg, að reynt sje að hita upp með kolakyndingu, því stöðugt eru 30—40 rafmagnsofnar í notkun, en ekkert dugar samt. Flestar raflagnir í Winston hóteli munu vera ólöglegar að okkar reglugerðum.“[5]

Í október sama ár ákvað svo flugvallarstjórnin að loka hótelinu og stefna að því að finna leigjanda að því.[6] Margir voru þó ósáttir við að hótelinu skildi vera lokað á meðan beðið væri eftir mögulegum nýjum rekstraraðila því á meðan lá niðri öll þjónusta við flugfarþega á flugvellinum. Svo segir í Morgunblaðinu 12. október 1947:

„Flugráðinu hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa lokað Hótel Winston á Reykjavíkurflugvelli. En sannleikurinn er sá, að með þeirri ráðstöfun var gert þarfa verk, sem ekki mátti dragast öllu lengur. Winston hótelið var engum til sóma, en landinu oft til skammar, er þangað komu útlendingar og fengu þar illan beina, eða engan, eins og stundum kom fyrir. Hjer er ekki verið að áfellast sjerstaklega þá, sem stjórnuðu gistihúsinu eða starfsfólkið, því engum var betur ljóst, en sumum stjórnendum þar hve fyrirkomulagið allt var brjálað í rekstri þessa veitinga- og gistihúss. Það var oft köld aðkoma fyrir flugferðafólk að koma í þetta gistihús. Flugvjelar fara og koma eins og kunnugt er á öllum tímum sólarhrings og veitingahús á flugvöllum verða að vera við því búin að geta tekið á móti gestum hvenær sem er. En ekki á Winston. Það kom fyrir, að farþegar, sem leituðu þangað um fótaferðatíma hittu ekki fyrir annað fólk en ræstingakonur. Önnur óregla var á Winston, sem ekki verður rakin hjer. En margar ljótar sögur mætti segja, þótt sumar sjeu varla prenthæfar. Hitt er svo rjettmæt aðfinnsla, að það er ekki hægt að una við það til lengdar, að ekki skuli vera veitinga- og gistihús í sambandi við flugvöll höfuðstaðarins. Það bar við á dögunum, að hingað kom sænsk flugvjel að morgni dags og þurfti að bíða nokkuð eftir afgreiðslu. Farþegarnir þurftu að fara úr vjelinni og urðu að hírast i skítugum og köldum bröggum, án þess að þeir gætu fengið svo mikið sem kaffisopa. Eitt slíkt atvik getur gert okkur mikið tjón og veldur álitsmissi. Nei, gistihús verður að opna á ný á flugvellinum og mun Flugráðið og hafa það í hyggju, þar sem það hefur auglýst Winston til leigu.“[7]

Agnar Kofoed-Hansen flugvallarstjóri svaraði því til „að sú landkynning, sem gistihús þetta hafi rekið með tilveru sinni, hafi siður en svo verið Íslandi og Íslendingum í hag, því að gistihúsið hafi verið til skammar. Rekstur þess hafi í alla staði verið langt frá því, sem æskilegt hefði verið. Hefði flugráðið talið sjálfsagt að loka gistihúsinu, uns búið væri að taka ákvörðun um, hvernig rekstri þess og ýmislegs annars í sambandi við flugmál, sem nú er í deiglunni,væri best hagað í framtíðinni.“[8]

Eysteinn Jónsson menntamálaráðherra gaf í sameinuðu þingi þann 19. nóvember 1947 ítarlega skýrslu um rekstur flugmála og upplýsti ráðherrann, „að í tíð fyrrverandi stjórnar hefði verið rekið sérstakt hótel á Reykjavíkurvellinum á kostnað ríkissjóðs, Hótel Winston. Þessi hótelrekstur var lagður niður í sumar, og var þá tapið á rekstrinum á tímabilinu frá 1. maí 1946 til 1. júlí 1947 orðið 165 þús. kr., auk þess, sem endurbætur á húsakynnum hótelsins höfðu kostað 401 þús. Vera má þó, að hallinn reynist meiri, því að reikningsuppgjörinu er enn ekki lokið. Hótelið hefir nú verið leigt út og mun ríkið því ekki verða lengur fyrir halla af rekstri þess.“[9]

Hótelið var síðan um stutt skeið leigt til einkaaðila undir hótelrekstur og var þá meðal annars kallað Hótel Ritz. Þetta var eina hótelið við Reykjavíkurflugvöll á 5. áratugnum og var mikið sótt af farþegum í innanlandsferðum auk þess sem það rak matstofu fyrir starfsfólk flugvallarins um tíma. Reksturinn gekk þó erfiðlega enda millilandaflugið komið til Keflavíkurflugvallar þar sem nýtt flugvallarhótel, Hótel Keflavík, tók til starfa 1949. Ferðaskrifstofa ríkisins tók við rekstri hótelsins 1948 sem eftir það var kallað Flugvallarhótelið.

Undir lok 5. áratugarins var vinsælt að halda þar dansleiki og aðra mannfagnaði. Eftir að Ferðaskrifstofan tók við rekstri hótelsins var það líka notað sem gististaður fyrir íslenska ríkið þegar með þurfti. Þannig gistu þar til dæmis skipbrotsmenn af þremur skipum 1949 og 1950 og eins landbúnaðarverkafólk frá Þýskalandi sem kom til að vinna á íslenskum bæjum. Eftir að frárennsli frá hótelinu var bætt 1949 varð vinsælt að stunda sjósund í Nauthólsvík. Þá var sett upp búningsklefa- og sturtuaðstaða í hótelinu fyrir sjóbaðsfólkið.

Reksturinn var Ferðaskrifstofunni erfiður enda var hún hálfneydd til að taka hann að sér. Árið 1951 baðst hún undan rekstri hótelsins sem hætti skömmu síðar.

Tilvísanir

breyta
  1. „Flugvöllurinn í Reykjavík Hótel Winston“. Brunavirðingar Reykjavíkur.
  2. Arngrím Sigurðsson (1994). Það verður flogið... Flugmálasaga Íslands 1919 -1994.
  3. „Þankabrot“. Íslendingur, 32 árgangur 1946. Sótt 1. september 2012.
  4. „Hannes á horninu“. Alþíðublaðið. Sótt 1. september 2012.
  5. „Víkverji skrifar“. Morgunblaðið. Sótt 1. september 2012.
  6. „Óviðunandi ástand á Reykjavíkurflugvelli“. Vísir, 8. október 1947. Sótt 1. september 2012.
  7. „Smánarblettur afmáður“. Morgunblaðið, 12. október 1947. Sótt 1. september 2012.
  8. „Mikið ólag á rekstri Hotel Winston orsök lokunarinnar“. Vísir, 13. október 1947. Sótt 2. september 2012.
  9. „Föstum starfsmönnum flugvallanna fækkað um 27“. Tíminn, 20. nóvember 1947. Sótt 2. september 2012.

Tengt efni

breyta