Flugvallarhótelið í Reykjavík

Flugvallarhótelið í Reykjavík (áður Hótel Ritz, Hótel Winston og Transit Camp) var hótel í Nauthólsvík þar sem nú eru kænudeild Siglingafélags Reykjavíkur, Brokeyjar, veitingahúsið Bragginn og hugmyndahús Háskólans í Reykjavík. Hótelrekstur var í húsnæðinu í einn áratug, frá því það var reist 1942 til 1951 en frá 1971 hefur Siglingafélag Reykjavíkur haft þar aðstöðu. Hótelið var með aðstöðu fyrir sjósund frá 1949 til 1951.

Saga hótelsins

breyta

Hótelið var reist af breska hernum í tengslum við Reykjavíkurflugvöll og er nokkrir braggar og skemmur sambyggðar. Formlegt heiti þess var einfaldlega Transit Camp. Sagt er að Winston Churchill hafi heimsótt hótelið þegar hann kom í dagsferð til Reykjavíkur árið 1941 og var það því nefnt Hotel Winston í höfuðið á honum en þetta er líklega flökkusaga enda húsnæðið sem þar er nú byggt ári síðar. Þetta nafn var hins vegar notað þegar flugvallarstjórnin tók við rekstri hótelsins 1946. Hótelið var um stutt skeið leigt til einkaaðila undir hótelrekstur og var þá meðal annars kallað Hótel Ritz. Þetta var eina hótelið við Reykjavíkurflugvöll á 5. áratugnum og var mikið sótt af farþegum í innanlandsferðum auk þess sem það rak matstofu fyrir starfsfólk flugvallarins um tíma. Reksturinn gekk þó erfiðlega enda millilandaflugið komið til Keflavíkurflugvallar þar sem nýtt flugvallarhótel, Hótel Keflavík, tók til starfa 1949. Ferðaskrifstofa ríkisins tók við rekstri hótelsins 1948 sem eftir það var kallað Flugvallarhótelið.

Undir lok 5. áratugarins var vinsælt að halda þar dansleiki og aðra mannfagnaði. Eftir að Ferðaskrifstofan tók við rekstri hótelsins var það líka notað sem gististaður fyrir íslenska ríkið þegar með þurfti. Þannig gistu þar til dæmis skipbrotsmenn af þremur skipum 1949 og 1950 og eins landbúnaðarverkafólk frá Þýskalandi sem kom til að vinna á íslenskum bæjum. Eftir að frárennsli frá hótelinu var bætt 1949 varð vinsælt að stunda sjósund í Nauthólsvík. Þá var sett upp búningsklefa- og sturtuaðstaða í hótelinu fyrir sjóbaðsfólkið.

Reksturinn var Ferðaskrifstofunni erfiður enda var hún hálfneydd til að taka hann að sér. Árið 1951 baðst hún undan rekstri hótelsins sem hætti skömmu síðar. 1962 var siglingaklúbburinn Siglunes stofnaður af Æskulýðsráði Kópavogs og Æskulýðsráði Reykjavíkur og fékk aðstöðu í einum bragganum. 1967 var reist sérstök 250fm skemma yfir klúbbinn og steyptur rampur til sjósetningar á bátum. Árið 1968 var sjóbaðstaðnum lokað vegna mengunar og sjóböð lögðust af.

Siglingafélag Reykjavíkur

breyta

Þegar fyrstu siglingafélögin voru stofnuð 1971 í Kópavogi og Reykjavík, fékk annað þeirra, Siglingafélag Reykjavíkur, aðstöðu í hluta gamla hótelsins. Þar sem ströndin var nú lítið notuð gat félagið komið sér upp rennu með spili til að draga litla báta þar á land og upp kambinn að skemmunni þar sem þeir voru geymdir. Frá 1984 til 1993 voru seglbrettaskóli og seglbrettaleiga rekin þar á vegum siglingafélagsins og fleiri aðila. Árið 1997 kom Siglingafélagið upp búningsklefa- og sturtuaðstöðu fyrir keppni í siglingum á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru á Íslandi það ár. Þegar framkvæmdir hófust við Ylströndina í Nauthólsvík árið 1999 missti félagið aðgang að sjó við ströndina og hefur eftir það sjósett við skemmu Sigluness. Í dag er Siglingafélagið með kænustarfsemi sína í húsnæðinu, sumarnámskeið fyrir börn og unglinga og æfingahópa sem keppa í kænusiglingum. Frá 2001 hefur Kayakklúbbur Reykjavíkur auk þess leigt hluta af skemmu Siglingafélagsins undir geymslu fyrir kajaka félagsmanna.

Hugmyndir um stríðsminjasafn

breyta

Flugmálastjórn Íslands fór með stjórn húsanna, eins og annarra mannvirkja við Reykjavíkurflugvöll, til ársins 2010 en þá tók framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar við þeim. Oft hefur verið rætt um að gera þyrfti upp þær byggingar í Nauthólsvík sem eru frá Síðari heimsstyrjöld og varðveita þær með sómasamlegum hætti enda eru þetta meðal fárra slíkra bygginga sem eftir eru í borgarlandinu. Þannig stakk Helgi M. Sigurðsson, safnvörður í Árbæjarsafni upp á því 1995 að stofnað yrði stríðsminjasafn í einum bragganna í Nauthólsvík. Sama ár var Stríðsárasafn á Reyðarfirði opnað og miklar umræður spunnust um nauðsyn þess að koma upp slíku safni á suðvesturhorni landsins, meðal annars í Nauthólsvík og í Hvalfirði. Ekkert varð þó af þeim áætlunum.

Tengt efni

breyta