Héraðsskjalasafn Skagfirðinga

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er íslenskt skjalasafn staðsett á Sauðárkróki. Umdæmi safnsins er Sveitarfélagið Skagafjörður.

Saga breyta

Sögufélag Skagfirðinga var stofnað árið 1937 og var tilgangur þess m.a. að safna heimildum um liðna tíma og varðveita þau á tryggum stað. Einn af stofnendum þess var Jón Sigurðsson alþingismaður frá Reynistað í Skagafirði. Árið 1947 lagði Jón fram frumvarp til laga, sem heimilaði stofnun skjalasafna í einstökum héruðum, sem lutu þó yfirstjórn Þjóðskjalasafns Íslands. Var stofnun safnsins beint framhald af stofnun Sögufélagsins og átti í raun að varðveita þær heimildir sem Sögufélagið hafði safnað. Í kjölfar þess að lögin um héraðsskjalasöfn voru samþykkt var Héraðsskjalasafn Skagfirðinga stofnað og var það hið fyrsta sinnar tegundar en önnur héruð fylgdu á eftir.  

Fyrsti formlegi skjalavörður við safnið var Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg og gengdi hann því embætti til 1990 er Hjalti Pálsson tók við sem héraðsskjalavörður. Unnar Ingvarsson var héraðsskjalavörður frá 2000 til 2014. Núverandi héraðsskjalavörður er Sólborg Una Pálsdóttir og tók hún við starfi árið 2014.[1]

Safnkostur breyta

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga var ekki síst stofnað með það í huga að geta varðveitt margvísleg handrit einstaklinga. Umfangsmikil söfnun á handritum hófst á fyrri hluta 20. aldar og náði söfnun þeirra í raun út fyrir Skagafjörð. Elsta handrit sem varðveitt er á safninu er Sverris saga og Konungsskuggsjá, rituð um 1660 fyrir Magnús Jónsson prúða í Vigri. Við viðgerð á handritinu um miðja 20. öld kom hins vegar í ljós eina skinnblaðið sem varðveitt er í safninu en það er blað með nótum, líklega frá 14. öld sem falið var í bandi bókarinnar. Fjölmörg handrit frá 18. öld eru varðveitt á safninu en flest eru þau frá 19. og 20. öld. Handritin geyma margvíslegt efni. Sögur, rímur, fræðslukver, hugleiðingar, skáldskapur, ættfræði og bréf eru meðal þess sem í þeim eru. Í safninu er margvísleg gögn sem flokkast undir opinber skjalgögn. Með þeim er átt við gögn opinberra aðila, s.s. sveitarfélaga og félaga sem njóta verulegs styrks af almannafé. Opinber skjalgögn eru afar fjölbreyttur skjalaflokkur. Þar má fá upplýsingar um líf og starf almennings en elstu opinberu heimildir sem varðveittar eru á safninu eru frá 18. öld.[2]

Tilvísanir breyta

Tenglar breyta