Guðrún Kvaran

íslenskur fræðimaður í íslenskum fræðum

Guðrún Kvaran (f. 1943) er fyrrum prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Guðrún Kvaran
Fædd1943
StörfFyrrum prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Ferill

breyta

Guðrún Kvaran lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963 og hóf um haustið nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Frá hausti 1965 vann hún við Orðabók Háskólans. Hún lauk kandídatsprófi haustið 1969 og innritaðist sama haust í Georg August háskólann í Göttingen, Þýskalandi, í málvísindi og samanburðarmálfræði. Samhliða því námi hafði Guðrún umsjón með Arkiv für Gewässernamen Deutschlands fyrir Akademie der Wissenschaften í Mainz. Auk þess kenndi hún íslensku fyrir útlendinga í nokkur misseri.[1]

Í janúar 1978 var Guðrún sett sérfræðingur við Orðabók Háskólans og skipuð í það starf ári síðar. Í janúar 1994 var hún skipuð forstöðumaður Orðabókar Háskólans og gegndi þeirri stöðu til 1. apríl 1998. Hún var skipuð prófessor við heimspekideild Háskóla Íslands árið 2000 og um leið forstöðumaður Orðabókar Háskólans. Því starfi gegndi hún til 2006 að Orðabók Háskólans varð hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Guðrún varð þá stofustjóri orðfræðisviðs.[1]

Á starfsárum sínum gegndi Guðrún margvíslegum trúnaðarstörfum innan Háskóla Íslands. Hún sat t.d. í háskólaráði 1990–1992 og átti á þeim árum setu í nefndum á vegum ráðsins. M.a. var hún skipuð í Vísindanefnd 1991 og sat í henni í sex ár. Á árunum 1999–2004 sat hún í úthlutunarnefnd rannsóknastyrkja á vegum Rannsóknasjóðs háskólans. Hún sat í stjórn Vísindaráðs frá hausti 1992 sem fulltrúi rektors og háskólaráðs til 1994. Hún var varamaður í stjórn Rannsóknarráðs Íslands í þrjú ár sem fulltrúi Vísindafélags Íslendinga. Hún var einnig formaður framgangsnefndar Háskóla Íslands á annan áratug.[1]

Guðrún hefur á starfsferli sínum sinnt margvíslegum störfum sem tengjast fræðasviði hennar og skrifað fjölda fræðigreina í innlend og erlend ráðstefnu- og tímarit auk þess sem hún hefur haldið fyrirlestra bæði innanlands og erlendis.[1] Viðfangsefni hennar hafa einkum beinst að þremur sviðum: sögu orðaforðans, tökuorðum í íslensku og nafnfræði.

Hún flutti þætti um íslenskt mál á vegum Orðabókar Háskólans í Ríkisútvarpinu frá hausti 1978 til vors 2005, alls 202 þætti. Frá 2005–2009 var hún í samvinnu við þáttinn Vítt og breytt hjá RÚV um söfnun staðbundinna orða og orða úr mæltu máli.[1] Guðrún hefur um árabil svarað spurningum um íslenskt mál fyrir Vísindavefinn.[2] Hún var forseti Vísindafélags Íslendinga 1990–1996.[3]

Guðrún sat í þýðingarnefnd Gamla testamentisins frá 1991–2007, fyrst sem varaformaður en síðan formaður nefndarinnar frá 1992. Nefndin sendi frá sér níu kynningarhefti með þeim bókum Gamla testamentisins sem lokið hafði verið við.

Frá því í ársbyrjun 2002 til miðs árs 2007 var hún einnig í þýðingarnefnd Nýja testamentisins. Eitt kynningarhefti var gefið út með öllum texta Nýja testamentisins. Öll Biblían var síðan gefin út 2007, Gamla testamentið, apókrýfu bækurnar og Nýja testamentið. Guðrún fylgdi þýðingunni til loka og kynnti hana í fyrirlestrum.[4]

Guðrún hefur setið í ýmsum nefndum og stjórnum. Þar má telja stjórn Íslenskrar málnefndar frá 1987, formaður hennar frá 2002.[5] Hún hefur einnig setið í stjórn Hins íslenska þjóðvinafélags frá 1987 og verið forseti félagsins frá 2014, fyrst kvenna.[6]

Guðrún var ritstjóri tímaritsins Orðs og tungu, tímarits Orðabókar Háskólans, frá 1996–2011. Á þeim tíma komu út ellefu hefti (3.–13.). Sem fulltrúi Orðabókar Háskólans sat hún í nefnd um gerð orðstöðulykils að Biblíunni 1981 og var þar verkefnisstjóri.[7] Ritið kom út í árslok 1994.[1]

Viðurkenningar

breyta

Guðrún hefur fengið viðurkenningar og tilnefningar fyrir störf sín: Kjörin heiðursfélagi í Félagi íslenskra fræða á 60 ára afmæli þess í apríl 2007. Var veittur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2007 fyrir störf í þágu orðfræða og íslenskrar tungu.[8] Hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1991 fyrir bókina Nöfn Íslendinga ásamt Sigurði Jónssyni frá Arnarvatni. Hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2005 fyrir verkið Íslensk tunga I–III ásamt Höskuldi Þráinssyni og Kristjáni Árnasyni.[9]

Einkalíf

breyta

Foreldrar Guðrúnar voru Guðrún Vilhjálmsdóttir Kvaran (1921–2008) húsmóðir og Böðvar E. Kvaran (1919–2002) framkvæmdastjóri. Eiginmaður Guðrúnar er Jakob Yngvason eðlisfræðingur, fyrrum prófessor við háskólann í Vínarborg. Þau eiga tvö börn.

Heimildir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. „Starfsfólk. Guðrún Kvaran“.
  2. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=71484, Þúsundasta svar Guðrúnar Kvaran fyrir Vísindavefinn
  3. https://visindafelag.is/um-felagid/fyrri-stjornir/ Geymt 25 maí 2019 í Wayback Machine, Vísindafélag Íslendinga. Stofnað 1918 (e.d.). Fyrri stjórnir
  4. https://biblian.is/biblian/, Biblía 21. aldar – 2007.
  5. https://www.arnastofnun.is/is/islensk-malnefnd, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (e.d.). Íslensk málnefnd.
  6. https://www.thjodvinafelag.is/um-felagid/forsetar/, Hið íslenzka þjóðvinafélag. (e.d.). Forsetar hins íslenska Þjóðvinafélags
  7. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3308786, Biblían í þungamiðju rannsóknarstarfsins. (1991, 23. febrúar). Morgunblaðið.
  8. https://www.forseti.is/falkaordan/orduhafaskra/ Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine, Orðuhafaskrá.
  9. https://fibut.is/bokmenntaverdhlaun Geymt 25 maí 2019 í Wayback Machine, Félag íslenskra bókaútgefenda. Verðlaunahafar og tilnefningar.

Greinar

breyta
  • Guðrún Kvaran. (2009). Enginn lifir orðalaust. Fáein atriði úr sögu íslensks orðaforða. Orð og tunga 11:45–63.
  • Guðrún Kvaran. (2009). Staðbundinn orðaforði í orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Íslenskt mál og almenn málfræði 31: 181–195.
  • Guðrún Kvaran. (2007). Importord og afløsningsord i islandsk. Udenlandske eller hjemlige ord? En undersøgelse af sprogene i Norden. Red. Guðrún Kvaran. Bls. 19–46. Novus forlag, Oslo.
  • Guðrún Kvaran. (2010). Valg af ord til en islandsk fremmedordbog. Nordiska studier i lexikografi 10. Rapport frân Konferensen om lexikografi i Norden. Tammerfors 3-5 juni 2009. Harry Lönnroth och Kristina Nikula (red.). Skrifter utgivna av Nordiska föreningen för lexikografi. Skrift nr. 11. Bls. 263–273.
  • Guðrún Kvaran. (2012). Áhrif Biblíunnar á íslenskar nafngjafir. Mótun menningar. Afmælisrit - Festschrift. Gunnlaugur A. Jónsson 28.4.2012. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Guðrún Kvaran. (2007). Das isländische Personennamensystem. Europäische Personennamensysteme. Ein Handbuch von Abasisch bis Zentralladinisch. Herausgegeben von Andrea Brendler und Silvio Brendler. Bls. 310—321.Hamburg 2007.
  • Guðrún Kvaran. (2017). Breytingar Guðbrands biskups á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Hverjar voru fyrirmyndirnar? Áhrif Lúthers. Siðaskipt, samfélag og menning í 500 ár. Bls. 119–144. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 2017.
  • Guðrún Kvaran. (2013). Glíman við orðin. Ritgerðasafn. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Bækur

breyta