Grunnafjörður einnig kallað Leirárvogar er friðlýst svæði í Leirársveit; norðan Akrafjalls. Svæðið var friðlýst árið 1994 og verndað árið 1996 samkvæmt Ramsar-sáttmálanum um votlendi. [1] Eins og nafnið gefur til kynna er hinn eiginlegi fjörður grunnur og á leirunum þar er ríkulegt smádýra-, fiska- og og fuglalíf. Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu. Land innan friðlandsins er í einkaeigu. Aðgengi er því takmarkað. Frá 15. apríl til 15. júlí er svæðið lokað almenningi. Þess utan er hægt að heimsækja friðlandið með leyfi landeigenda.

Leirárvogur

Magnús Einarsson segir svo frá í stuttum endurminningum sínum:

Grunnafjörð[ur): sá fjörður skerst út úr Borgarfirði til landnorðurs milli Hafnarfjalla og Akrafjalls. Í mynni hans er þröngur ós, þar sem sjórinn rennur inn og út; um flóðið er hann hverju hafskipi fær inn í fjarðarbotn, en um fjöru þornar hann með öllu, og var hann þá alfaravegur Borgfirðinga, að og frá Akranesi. „Ég verð að bíða eftir fjöru,“ sögðu þeir oft. Innarlega í þessum firði er stór pollur; mér var sagt hann væri djúpur. Við poll þennan er stór klettur, sem sagt var að í hefði verið koparhringur; klettur þessi var kallaður Akkerissteinn. Á þessum polli átti að hafa verið skipalega. [2]

Tilvísanir

breyta
  1. Á Íslandi eru sex friðlýst svæði skráð sem Ramsarsvæði: Andakíll, Grunnafjörður, Guðlaugstungur, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver. Umhverfisstofnun fer með umsjón allra þessara svæða nema Snæfells- og Eyjabakkasvæðið, sem heyrir undir Vatnajökulsþjóðgarð
  2. Endurminningar; Selskinna, 1948

Tenglar

breyta