Grímur kamban var samkvæmt því sem segir í Færeyinga sögu fyrsti landnámsmaður í Færeyjum og er talið að hann hafi búið í Funningi á Austurey. Sagan hefst á þessum orðum:

Grímur kamban. Frímerki teiknað af Anker Eli Petersen.
„Maður er nefndur Grímur kamban; hann byggði fyrstur manna Færeyjar. En á dögum Haralds hins hárfagra flýðu fyrir hans ofríki fjöldi manna; settust sumir í Færeyjum og byggðu þar, en sumir leituðu til annarra eyðilanda.“

Meira segir ekki frá Grími. Grímur hefur þó ekki komið til Færeyja á dögum Haraldar hárfagra eins og frásögnin gæti bent til því að í Landnámabók er sagt frá því að sonarsonur Gríms, Þórólfur smjör, hafi komið til Íslands með Hrafna-Flóka fyrir 870 og er því líklegra að Grímur hafi numið land í Færeyjum á fyrstu áratugum 9. aldar en á valdatíma Haraldar hárfagra undir lok aldarinnar. Eyjarnar hafa þá ekki verið fullnumdar fyrr en löngu eftir að Grímur settist þar að.

Nafnið Kamban er talið af keltneskum uppruna og gæti bent til þess að Grímur hafi komið úr norrænum byggðum á Bretlandseyjum.

Tenglar

breyta
  • „Landnámabók. Af Snerpu.is“.
  • „Færeyinga saga. Af Snerpu.is“.