Giovanni Francesco Straparola

Giovanni Francesco Straparola, líka þekktur sem Zoan eða Zuan Francesco Straparola da Caravaggio (um 1485 – 1558) var ítalskt skáld og rithöfundur. Árið 1551 gaf hann út fyrsta bindið af sagnasafninu Le piacevoli notti („Yndisnæturnar“) sem hann er fyrst og fremst frægur fyrir. Bókin er byggð á Tídægru Giovanni Boccaccio og inniheldur 74 sögur, bæði ævintýri og gamansögur. Sögurnar koma fyrir í rammafrásögn þar sem hópur kvenna og karla hefst við í 13 nætur á eyjunni Murano í Feneyjum og konurnar skiptast á að segja sögur meðan karlarnir hlusta. Fyrir utan verk hans er lítið vitað um ævi Straparola og hugsanlega lést hann nokkru fyrir 1558, en nafn hans er ekki að finna á skrám yfir látna í Feneyjum á þessum árum. Kenninafnið Straparola merkir „sá sem talar mikið“ og er líklega viðurnefni fremur en ættarnafn.

Straparola

Sögur Straparola höfðu mikil áhrif á ævintýrabókmenntir næstu alda. Margar af sögunum voru endurbirtar í söfnum Giambattista Basile, Charles Perrault og Grimmsbræðra. Í safninu er til dæmis að finna elstu útgáfuna af sögunni um stígvélaða köttinn („Costantino fortunato“).