Geislaálag
Geislaálag, einnig nefnt líffræðilegt geislaálag, er mælikvaði á líffræðileg áhrif jónandi geislunar á menn, þegar tekið er tillit til tegundar geislunarinnar. Geislaálag lýsir betur líffræðilegum áhrifum geislunar heldur en geislaskammtur, t.d. eru líffræðileg áhrif alfageislunar 20-föld miðað við beta-, röntgen-, eða gammageislun. SI-mælieining geislaálags er sívert, táknuð með Sv. (Eldri mælieining er rem, þar sem 1 Sv = 100 rem.) Geislabyrði er heildargeislaálag af völdum geislunar yfir tiltekið tímabil frá efnum, sem borist hafa inn í líkamann, einnig mælt í einingunni sívert. Á Íslandi fylgjast Geislavarnir ríkisins með og mæla geislaálag og geislabyrði.