Garðar í Reynishverfi
Garðar er bær í Reynishverfi í Mýrdal, sunnan og vestan undir Reynisfjalli, og er syðsti bær á Íslandi. Svo hefur þó ekki verið nema í tæp 250 ár því byggð hófst ekki á Görðum fyrr en eftir miðja 18. öld.
Austan við bæinn í Görðum er hæð sem heitir Hjallar og má þar ekki hreyfa við neinu, annars er sagt að illa fari. Sunnan við Garða, í suðvestanverðu Reynisfjalli, eru fallegar stuðlabergsmyndanir og hellar. Einn þeirra heitir Hálsanefshellir og þar hélt ljósmyndarinn Rax sýningu árið 2004 í tilefni af útkomu bókar sinnar, Andlit norðursins. Sýningin stóð þó aðeins skamma stund því brimasamt er við hellisopið.