Galíleó (gervihnattaleiðsögn)
Galíleó er gervihnattaleiðsagnarkerfi sem er nú í þróun hjá Evrópusambandinu og Geimferðastofnun Evrópu. Verkefnið dregur nafn sitt af ítölskum stjörnufræðingi Galíleó Galílei. Eitt markmið þess er að stofna nákvæmt og sjálfstætt evrópskt gervihnattaleiðsagnarkerfi sem Evrópuþjóðir geta treyst á, án þess að þurfa að nota GPS-kerfi Bandaríkjanna eða GLONASS-kerfi Rússlands ef þeim yrði lokað. Notkun á grundvallarleiðsagnarþjónustu verður öllum opin ókeypis, en fyrirtækjum verður kleift að kaupa aðgang að nákvæmari staðsetningarþjónustu. Galíleókerfið er hannað þannig að það getur staðsett hlut með eins metra skekkju, og mun bjóða upp á betri staðsetningarhæfni við hærri hæðir en núverandi kerfi gefa kost á.
Höfuðstöðvar verkefnsins eru í Prag, en kerfið verður rekið frá tveimur stjórnstöðum í Oberpfaffenhofen nálægt München í Þýskalandi og Fucino á Ítalíu. Í október 2011 var fyrstu tveimur af fjórum gervihnöttum skotið upp til að prófa kerfið. Næstu tveir gervihnettirnir fylgdu þeim í október 2012. Frá og með september 2015 eru tíu Galíleógervihnettir á sporbraut um Jörðina.
Galíleó mun bjóða upp á nýjan björgunarmöguleika sem hefur ekki verið í boði hingað til. Gervihnettirnir eru útbúnir merkissvörum sem munu áframsenda merki frá senditæki notandans á stjórnstöð sem mun koma björgunarförum í gang. Samtímis getur kerfið tilkynnt notandanum að beiðni hans hafi verið móttekin og að aðstoð sé á leiðinni. Þetta eru talsverðar framfarir miðað við það sem GPS og GLONASS bjóða upp á, en þau geta ekki sent skilaboð til baka til notandans.
Opnað var fyrir þjónustu Galíleós frá 2016. Árið 2024 voru gervihnettir kerfisins orðnir 24 talsins.