Frostaveturinn mikli 1917-18
Veturinn 1917-18 er á Íslandi kallaður Frostaveturinn mikli, en þá gerði miklar frosthörkur hér á landi. Í janúar 1918 fór frost víða á landinu niður fyrir -30°C. Hafís var víða landfastur og rak talsvert suður fyrir land og lokaði siglingaleiðum fram í febrúar.
Frosthörkurnar gerðu illt verra en frumorsakir þrenginganna lágu í heimstyrjöldinni, verðhækkunum og skorti á nauðsynjavörum. Vorið 1917 hafði verð á nauðsynjavörum þá þegar hækkað um 100%, kol og salt var af skornum skammti, atvinnuleysi var mikið og fjöldi þeirra sem þáðu matargjafir stórjókst[1].
Frostharkan í janúar
breytaÍ byrjun janúar árið 1918 fór frostið allt niður í -38 gráður á celsíus og stóð linnulaust allan mánuðinn. Hafís lagði að ströndum allt frá Vestfjörðum, eftir öllu Norðurlandi og stærstum hluta Austfjarða. Húnaflóinn fylltist af hafís og allir firðir sem að honum liggja.
Fimmta janúar
breyta5. janúar 1918 kólnaði mjög í veðri og fór að snjóa á Norðurlandi. Klukkan sjö um morguninn var aðeins einnar gráðu frost í Reykjavík í alskýjuðu veðri og norðvestanátt, en komið niður í -7 gráður klukkan 17 síðdegis. Í Grímsey var hins vegar strax klukkan átta um morguninn komið -19 gráðu frost í snjókomu og fór brátt í -20 °C.
Níunda janúar
breytaAð kvöldi þess 9. var komið grimmdarfrost. Á Raufarhöfn var frostið -22 gráður og daginn eftir var sagt að við Reykjahlíð við Mývatn væri stórhríð og -27 gráðu frost. Í Reykjavík var frostið í kringum -16 gráður og næsta dag komið niður í -20 og norðan stormur.
Tuttugasta og fyrsta janúar
breytaMánudaginn 21. var -24,5 °C. í Reykjavík klukkan 7 að morgni í logni og heiðskíru veðri. Á Möðrudal á Fjöllum mældist -38 gráðu frost og er það mesta frost sem mælst hefur á Íslandi frá upphafi reglulegra mælinga. Í Stykkishólmi fór frostið í -29,7 gráður, Ísafirði -28, Akureyri -32,5, Grímsey -30,8 og á Seyðisfirði -26,0.
Tuttugasta og fjórða janúar
breytaSnjókoma var víða um land þann 24. þegar lægð gekk yfir landið og víða hvasst. Um morguninn var loks orðið frostlaust í Reykjavík í fyrsta sinn síðan 4. janúar.
Tenglar
breytaHeimildir
breyta- ↑ Þegar siðmenningin fór fjandans til : Íslendingar og stríðið mikla 1914-1918. Mál og menning. 2015. bls. 301–2. ISBN 978-9979-3-3573-3. OCLC 955127689.