Franski grafreiturinn á Fáskrúðsfirði
Franski grafreiturinn á Fáskrúðsfirði er grafreitur norðan við þorpið á Fáskrúðsfirði þar sem eru grafir 49 franskra og belgískra sjómanna sem létu lífið á veiðum við Ísland undir lok 19. aldar. Þrátt fyrir mótmæli sóknarprestsins á Kolfreyjustað, jarðsettu sjómennirnir vini sína í melnum utan við þorpið, sem síðan er nefnt „Á krossum“. Á leiðin settu Fransmennirnir trékrossa og fallega perlukransa. Allnokkru eftir að veiðum Frakka lauk við Ísland var grafreiturinn sléttaður og róðukross settur upp. Á stöplinum er ljóð eftir A. Cantel og nöfn þeirra sjómanna sem þekkt eru í grafreitnum.