Forsetakjör á Íslandi 1980

Forsetakjör 1980 fór fram þann 29. júní árið 1980. Fjögur voru í framboði þau Albert Guðmundsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Pétur J. Thorsteinsson sendiherra og Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri. Vigdís var fyrsta konan sem gaf kost á sér til embættis forseta Íslands og var jafnframt fyrsta konan í heiminum sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum.

Vigdís Finnbogadóttir sigraði í forsetakjörinu.

Fráfarandi forseti var Kristján Eldjárn en hann var kjörinn til embættisins 1968 og svo sjálfkjörinn 1972 og 1976. Kristján tilkynnti í ávarpi sínu á nýársdag 1980 að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri.[1] Sú tilkynning var þó aðeins staðfesting á því sem búist hafði verið við síðan um sumarið 1979 þegar Kristján gaf sterklega í skyn að hann yrði ekki í framboði.[2]

Frambjóðendur

breyta

Albert Guðmundsson

breyta

Albert Guðmundsson (f. 1923, 56 ára á kjördag) var fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, umsvifamikill viðskiptamaður og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann var snemma orðaður við framboð og staðfesti í ágúst 1979 að hann myndi bjóða sig fram ef Kristján Eldjárn færi ekki fram.[3] Hann staðfesti framboð sitt svo í kjölfar nýársávarps Kristjáns.[4]

Guðlaugur Þorvaldsson

breyta

Guðlaugur Þorvaldsson (f. 1924, 55 ára á kjördag) var ríkissáttasemjari og fyrrum rektor Háskóla Íslands. Hann var einnig snemma orðaður við framboð. Hann tilkynnti um framboð sitt 14. janúar 1980.[5]

Pétur Thorsteinsson

breyta

Pétur J. Thorsteinsson (f. 1917, 62 ára á kjördag) var sendiherra Íslands í átta asíulöndum með aðsetur í Reykjavík. Pétur var lögfræðingur að mennt sem hafði starfað innan utanríkisþjónustunnar síðan 1944. Hann tilkynnti um framboð sitt 14. janúar 1980.[6]

Vigdís Finnbogadóttir

breyta

Vigdís Finnbogadóttir (f. 1930, 50 ára á kjördag) var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og stundakennari í frönskum leikbókmenntum við Háskóla Íslands. Vigdís hafði áður verið kennari í MR og MH, leiðsögumaður hjá Ferðaskrifstofu ríksins, einn umsjónarmanna sjónvarpsþáttarins Vöku og umjónarmaður frönskukennslu í sjónvarpi.[7] Vigdís tilkynnti um framboð sitt 1. febrúar 1980 og varð þá fyrst kvenna til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.[8]

Kosningaúrslit

breyta
 
FrambjóðandiAtkvæði%
Vigdís Finnbogadóttir43.61133,79
Guðlaugur Þorvaldsson41.70032,31
Albert Guðmundsson25.59919,84
Pétur J. Thorsteinsson18.13914,06
Samtals129.049100,00
Gild atkvæði129.04999,58
Ógild atkvæði1910,15
Auð atkvæði3550,27
Heildarfjöldi atkvæða129.595100,00
Kjósendur á kjörskrá143.19690,50
Heimild: Hagstofa Íslands

Fylgi í einstaka kjördæmum

breyta
Hlutfallslegt fylgi (%)
Kjördæmi Albert Guðlaugur Pétur Vigdís
Reykjavík 24,6 29,4 15,3 30,7
Reykjanes 22,3 31,4 14,9 31,4
Vesturland 14,5 35,6 13,8 36,1
Vestfirðir 9,9 34,2 18,0 37,9
Norðurland vestra 14,2 36,8 11,1 37,9
Norðurland eystra 10,9 39,3 11,6 38,2
Austurland 9,8 33,6 10,9 45,7
Suðurland 20,9 32,9 11,1 35,1

Tilvísanir

breyta
  1. „Þrjú kjörtímabil eru hæfilegur tími í embætti“. Morgunblaðið. 3. janúar 1980. bls. 1.
  2. „Kristján Eldjárn ákveðinn að hætta“. Dagblaðið. 31. júlí 1979. bls. 1.
  3. „Albert í framboði í forsetakosningum“. Dagblaðið. 1. ágúst 1979. bls. 1.
  4. „Ákvörðun mín stendur óbreytt“. Morgunblaðið. 3. janúar 1980. bls. 40.
  5. „Framboðsmálin skýrast“. Tíminn. 15. janúar 1980. bls. 1.
  6. „Fjöldi áskorana ræður framboði mínu“. Dagblaðið. 15. janúar 1980. bls. 5.
  7. „Úrval úr dagskrá næstu viku“. Vísir. 15. janúar 1972. bls. 4.
  8. „Vigdís Finnbogadóttir í framboð“. Morgunblaðið. 2. febrúar 1980. bls. 44.

Heimildir

breyta


Fyrir:
1968
Forsetakjör Eftir:
1988