Fornleifarannsóknir í Papey

Þó Papey sé tiltölulega lítil eyja þá hafa töluverðar fornleifarannsóknir verið gerðar þar. Þá aðallega til að sannreyna orð Ara fróða í Landnámabók og örnefnið sjálft, um að hér hafi verið írskir munkar (papar) fyrir og við komu norrænna landnámsmanna.

Daniel Bruun, danskur fornleifafræðingur, var með þeim fyrstu til að gera fornleifarannsóknir í eyjunni en hann gerði fjölda fornleifarannsókna á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar. Frægustu fornleifarannsóknir þar eru hins vegar þær sem Kristján Eldjárn fornleifafræðingur og seinna forseti Íslands gerði. Hann hóf þar rannsóknir árið 1967 sem stóðu með hléum til 1981. Hann lést árið eftir að rannsókn hans í Papey lauk en skildi eftir sig drög að skýrslu um rannsóknina, sem kom svo út árið 1988 og var birt í Árbók Hins íslenska fornleifafélags.

Rannsóknir Kristjáns Eldjárns breyta

Hann rannsakaði marga staði á eyjunni, til að mynda Írskuhóla, Papa- og Goðatættur, forna garða og garðlög og tvö hús við Áttahringsvog. Eins og sjá má af þessum nöfnum er það ekki einungis heiti eyjarinnar sem vísar til papa heldur líka ýmis örnefni á eyjunni. Þeir staðir voru helst skoðaðir af fornleifafræðingum. Írskuhólar reyndust vera náttúrulegir en tóftir voru við þá sem eru nefndar Papatættur. Þar var grafið niður, ekkert mannvistarlag fannst og er tóftin talin hafa verið kindakofi. Aldursgreiningar eru erfiðar í eyjunni því öskulög (sem eru eitt helsta tæki íslenskra fornleifafræðinga til tímasetningar) eru illgreinanleg í eyjunni. Helst er það hvítt öskulag Öræfajökuls sem gaus 1362 sem er greinanlegt. Öskulag þetta fannst ekki innan í tóftinni en utan þess. Af því má ráða að húsið hafi staðið fyrir 1362 en hve snemma það var byggt er ekki vitað með vissu.

Þær minjar sem reyndust svo verða árangursríkastar til rannsókna á eyjunni voru Goðatættur. Byggingarnar sem þar fundust voru víkingaaldarbyggingar, sennilega frá 10. öld. Þar fannst það sem talið er vera fjós, og hýbýli manna. Þarna hafa þá líklegast fundist bæjarstæði frá landnámsöld. Húsin voru orðin að rúst einni þegar öskulag Öræfajökuls 1362 féll þar yfir.

Munir breyta

Í eyjunni fundust nokkrar leifar af munum, til dæmis spýtnabrot, dýrabein, brýnisbrot, snældusnúður og öxi. Reynt var að komast að því hvort spýturnar hefðu eitt sinn verið kross, sem gætu þá verið vísbending um veru kristinna manna þar fyrir komu norrænna heiðinna manna. Ekki tókst að færa sönnur á það með vissu að þetta væru minjar papa en mjög líklega voru spýtubrotin eitt sinn krossar. „...skorið hefur verið gróp í stofn og þvertré, hálft í hálft, og smellt saman...engir slíkir krossar eru áður kunnir hér á landi...“.[1]. Þau fundust á hæðsta stað eyjarinnar, Hellisbjargi, er verið var að grafa fyrir vatnsþró.

Kristján efaðist um búsetu papa í Papey eftir sínar rannsóknir. Hann leiddi að því líkur að hólarnir í eyjunni hafi getað orðið tilurð nafnsins, því slík býkúpulöguð mannvirki voru þekkt byggingarform írskra munka, eins og sjá má vel enn þann dag í dag í eyjunni Skellig Michael við Írlandsstrendur. Þekkt er að munkaklaustur á þessum slóðum urðu iðulega fyrir barðinu á víkingainnrásum og því hafa þeir þekkt þessar byggingar keltnesku munkanna.

Niðurstaðan er því sú að ekki verður sannað út frá forn- og mannvistarleifum að írskir munkar hafi dvalið í eyjunni fyrir komu norrænna manna en hitt er víst að búseta norrænna manna hófst þar mjög snemma eða við landnám. Þessi búseta varði fram á miðja tuttugustu öld, en þá lagðist hún af.

Heimild breyta

Kristján Eldjárn, „Papey. Fornleifarannsóknir 1967-1981“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 85 (1988).

Tilvísun breyta

  1. Kristján Eldjárn, „Papey. Fornleifarannsóknir 1967-1981“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 85 (1988), bls. 115.

Tenglar breyta

Kristján Eldjárn, „Papey. Fornleifarannsóknir 1967-1981“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 85 (1988).