Fjármálakreppan í Rússlandi 1998
Fjármálakreppan í Rússlandi 1998 (líka kölluð Rúblukreppan eða Rússaflensan) var fjármálakreppa sem hófst í Rússlandi 17. ágúst 1998. Ástæður kreppunnar voru hátt fastgengi rússnesku rúblunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og krónískur halli á rekstri ríkissjóðs. Hár kostnaður við Fyrsta Téténíustríðið 1994-1996 og Fjármálakreppan í Asíu 1997 urðu til þess að hrinda kreppunni af stað. Í mars þetta ár rak Borís Jeltsín Víktor Tsjernomyrdín forsætisráðherra og alla ríkisstjórnina. 12. maí sama ár hófu kolanámumenn verkfall vegna vangoldinna launa. Þann 13. júlí samþykkti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neyðarlán til Rússa. Ríkisstjórnin hélt fast við gengisstefnuna sem gekk út á að halda gengi rúblunnar stöðugu miðað við Bandaríkjadal en efnahagsumbætur stjórnarinnar fengu ekki brautargengi í þinginu og vaxtagreiðslur ríkisins voru miklu hærri en skatttekjur. Þetta gróf undan trausti fjárfesta sem hófu að losa sig við rúblur í stórum stíl.
Þann 17. ágúst ákvað stjórnin að fella gengi rúblunnar, lýsa yfir greiðslufalli innlendra skulda og tímabundinni greiðslustöðvun gagnvart erlendum skuldum. Í september hafði rúblan fallið úr 6 á hvern dal í 21. Síðar í september rak Jeltsín Borís Fjodorov seðlabankastjóra. Verðbólga náði 84% og margir bankar lokuðu. Andstaða við Jeltsín í rússneska þinginu óx hratt.
Þrátt fyrir alvarleika kreppunnar náði Rússland sér fljótt aftur á strik. Helsta ástæða þess var ört hækkandi olíuverð 1999-2000 sem skapaði mikinn afgang af viðskiptum við útlönd.