Félagsnámskenning

Félagsnámskenning er sú kenning í námssálfræði að börn læri m.a. með því að líkja eftir öðrum, hlusta og horfa á hvernig aðrir gera og læra þannig, hvernig þau eigi að fara að.

Flestir þekkja mikilvægi góðra fyrirmynda og stundum er sagt að börnin læri málið af því að það er fyrir þeim haft. Barn getur munað brot af ólíkum aðgerðum og sett saman í ný munstur, eins og með orð, sem sett eru í ný sambönd (Bandura 1977). Það er líklegra að börn tileinki sér hegðun annarra, ef hegðunin virðist hafa jákvæð áhrif að einhverju leyti. Einnig er mikilvægt að bíða ekki eftir að barn tileinki sér æskilega hegðun, eingöngu með því að barni sé gert líkan, eða fyrirmynd, að hegðuninni, heldur ber að setja orð á að tiltekin aðgerð eða munstur sé jákvætt og hvers vegna það sé og auka þannig virkni líkansins og meðvitund þess eða þeirra, sem talið er gott að fylgi fordæminu, sem líkanið gefur (Bandura 1977:28). Dæmi um þetta getur verið að kennari sjái að barn framkvæmi aðgerð, sem samkvæmt Piaget gæti verið því ósjálfráð að einhverju leyti (Bandura 1977). Ef kennari vill styrkja þessa aðgerð barnsins og telur e.t.v. jafnframt að annað barn eða börn, gætu tileinkað sér þessa tilteknu færni hraðar, með því að fylgja fordæmi barnsins, þá getur hann sett orð á aðgerðina: Sagt eða spurt, eins og hann sé þátttakandi í uppgötvun barnanna. Þegar barni er gefið færi á að svara, þarf það að setja orð á hugsun sína og eykur þá e.t.v. um leið skilning sinn. Þó gæti aðgerðin verið barni ósjálfráð að einhverju leyti og jafnvel utan við svæði mögulegs þroska þess, að beita rökhugsun um þessa tilteknu aðgerð (Charles 1981; Bandura 1977). Þegar börn leika sér saman, leggja þau saman hæfni sína og e.t.v. gætu börnin einnig beitt rökum saman.

  Þessi sálfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.