Fáni Hong Kong
Fáni Hong Kong sýnir stílfærð hvít krónublöð Hong Kong-orkídeu á rauðum grunni. Fáninn er héraðsfáni sérstjórnarhéraðsins Hong Kong innan Alþýðulýðveldisins Kína. Hann var tekinn upp á þingi Kína árið 1990 en var fyrst dreginn að húni í Hong Kong þegar Kínverjar tóku við stjórn héraðsins frá Bretum árið 1997.
Fyrir 1997 hafði fáni Hong Kong verið ýmsar útgáfur af breska flotafánanum líkt og í fleiri nýlendum Breta.