Eyja hinna dauðu (málverk)
Eyja hinna dauðu (þ. Die Toteninsel) er þekktasta málverk svissneska symbolistans Arnold Böcklins (1827-1901). Hann málaði nokkrar útgáfur af málverkinu á árunum 1880-1886 og eina mynd sem hann nefndi Eyja lífsins. Eftirprentanir af Eyju hinna dauðu voru vinsælar víða um Evrópu — rússneski rithöfundurinn Vladimir Nabokov sagði þau vera að finna á hverju heimili í Berlín.[1] Sigmund Freud, Vladimir Lenin og Georges Clemenceau voru með eftirprentun í skrifstofum sínum.
Lýsing
breytaAllar útgáfurnar sýna litla eyju fyrir miðju sem er nánast autt sker umkringt vatni. Hvergi í bakgrunninn glittir í land við sjóndeildarhringinn. Einhverskonar híbýli eru þó á eyjunni þar sem sést að búið er að höggva í steininn innganga og op sem minna á forna grafreiti. Einnig er búið að byggja höfn sem hægt er að leggja báta að. Við hafnarmynnið er bátur sem stefnir að eyjunni og í honum virðast vera tvær manneskjur. Önnur rær bátnum en hin virðist vera hvítklædd kona sem stendur bein í baki á bátnum fyrir framan líkkistu eiginmanns síns. Á miðri eynni eru nokkur sýprusviðartré - sem hefð er fyrir að gróðursetja í kirkjugörðum og tengjast dauðanum - og ná rétt upp fyrir klettaveggina sem mynda hálfhring í kringum þau.
Böcklin útskýrði aldrei verkið en hann á þó að hafa sagt um það að það væri draumi líkast og ætti að kalla fram kyrrð.[2] Nafnið á málverkinu var ekki valið af Böcklin heldur af listaverkasalanum Fritz Gurlitt árið 1883. Í bréfi sem Böcklin sendi þeim sem upprunalega lagði inn pöntun fyrir málverkinu, Alexander Günther, nefndi hann verkið Eyja hinna dauðu.[3]
Talið er að Böcklin hafi haft að fyrirmynd Enska kirkjugarðinn í Flórens, en Böcklin átti heima í Flórens þegar hann málaði verkin. Í kirkjugarðinum var dóttir hans, Maria, grafin en hún lést aðeins sjö mánaða gömul. Böcklin missti alls átta börn af þeim 14 sem hann eignaðist.
Eyjan sem Böcklin hefur hugsanlega notað sem fyrirmynd er Pondikonisi, lítil eyja nærri Korfú eða Ponza í Tyrrenahafi.
Túlkun
breytaLeiða má líkum að því að ræðarinn eigi að tákna Karon, persónu úr grískri goðafræði, sem ferjaði sálir þeirra, sem nýlega höfðu dáið, yfir ána, sem aðskildi heim hinna lifandi og hinna dauðu. Samkvæmt því væri vatnið annað hvort áin Styx eða Akkeron og áfangastaðurinn því dvalarstaður hinna látnu.
Áhrif
breytaÍslenski myndhöggvarinn Einar Jónsson ferðaðist til Flórens fljótlega eftir aldamótin 1900 og sagði svo í ævisögu sinni: „Sérstakur yndisleiki hvíldi hér yfir öllu. Þetta var önnur veröld en fyrir norðan Alpana. Ég fór að bera umhverfið saman við landslagsmyndir, sem ég hafði séð frá Ítalíu, en fannst það ekki líkt þeim, nema helst málverkum Arnolds Böcklins einmitt þess málara, sem legið var á hálsi fyrir það, að verk hans væru óraunveruleg. Nú sá ég, að sú gagnrýni var út í bláinn, að Böcklin vissi lengra en nef hans náði og túlkaði með pensli sínum dýpri og sannari skynjun á náttúrunni en þá, sem aðeins tekur til hins sýnilega yfirborðs.“[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ Vladimir Nabokov (1936; English translations 1937, 1965), Despair, bls. 56.
- ↑ Í bréfi til Marie Berna þann 29. júní 1880 skrifaði hann á þýsku: „Am letzten Mittwoch ist das Bild "Die Gräberinsel“ an sie abgegangen. Sie werden sich hineinträumen können in die Welt der Schatten, bis sie den leisen lauen Hauch zu fühlen glauben, den das Meer kräuselt. Bis sie Scheu haben werden die feierliche Stille durch ein lautes Wort zu stören.“
- ↑ Eftir að hafa lokið við málverkið fyrir Alexander Günther sendi Böcklin honum bréf sem í stóð „…Endlich ist die Toteninsel soweit fertig, dass ich glaube, sie werde einigermaßen den Eindruck machen…“
- ↑ Einar Jónsson. Minningar og skoðanir. Bókfellsútgáfan. 1944. bls 198
Tenglar
breytaErlendir tenglar