Esso
Esso er vörumerki í eigu bandaríska olíufyrirtækisins ExxonMobil. Það er dregið af skammstöfuninni S.O. sem stóð fyrir Standard Oil. Merkið var einkum notað utan Bandaríkjanna þar sem það var háð takmörkunum vegna deilna um eignarhald Standard Oil-vörumerkisins.
Olía var seld undir merkjum Esso á Íslandi frá því skömmu fyrir Síðari heimsstyrjöld. Árið 1947 var Olíufélagið h.f. stofnað af SÍS og nokkrum olíusamlögum utan Reykjavíkur. Olíufélagið fékk einkaumboð á sölu olíu undir merkjum Esso. Árið 2007 sameinaðist Olíufélagið h.f. varahlutaversluninni Bílanaustum og til varð N1.