El Grillo var 10 þúsund lesta olíubirgðaskip Bandamanna sem þrjár þýskar flugvélar gerðu sprengjuárás á í síðari heimsstyrjöldinni á Seyðisfirði þann 10.febrúar 1944. Flugvélarnar vörpuðu sprengjum á skipið og hæfði ein þeirra skutinn svo það sökk að hálfu leyti. Áhöfnin sem í voru 48 menn slapp, en skipverjar á skipinu skutu á móti við árásina. Eftir árásina var skipið svo laskað að Bretar ákváðu að sökkva því, þó mikið magn olíu væri enn um borð.

Skipið var vel vopnað, með tvær fallbyssur, fjórar loftvarnabyssur og fjórar rakettubyssur. Eins voru djúpsprengjur um borð.

Olíumengunar frá flakinu hefur orðið vart öðru hverju á Seyðisfirði allt frá því að skipið sökk. Árið 1952 dældu Olíufélagið og Hamar 4500 lítrum af olíu úr El Grillo þar sem það liggur á 30-40 metra dýpi á botni Seyðisfjarðar. Árið 2001 var svo ráðist í viðamiklar hreinsunaraðgerðir af hálfu íslenska ríkisins til að ná afganginum af olíunni úr skipsflakinu. Árið 1983 vann Landhelgisgæslan í samstarfi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli við könnun á djúpsprengjum í flakinu. Þá voru teknar upp 3 djúpsprengjur sem fluttar voru yfir í Loðmundarfjörð þar sem þær voru sprengdar á 7 metra dýpi til að kanna virkni sprenigefnis þeirra. Árið 1985 tóku síðan sömu aðilar úr flakinu alls 25 djúpsprengjur auk mikils magns af 20 mm loftvarnarskotum ásamt stærri fallbyssuskotum sem var eytt í Seyðisfirði, en á tímabilinu frá 1972-2006 hafa yfir 500 sprengjur verið fjarlægðar úr því. Einni fallbyssunni hefur einnig verið lyft upp og er hún nú minnisvarði á Seyðisfirði.

Vinsælt er að kafa niður að skipinu, en það er ekki nema fyrir lærða kafara vegna dýpisins.