Eine kleine Nachtmusik

Eine kleine Nachtmusik („lítið næturljóð“) eða Serínaða fyrir strengi í G-dúr eins og verkið í raun heitir, er ein frægasta og vinsælasta tónsmíð Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Hún er skrifuð árið 1787 í Vínarborg. Verkið er merkt sem K. 525 í Köchel-skránni yfir verk Mozarts.

Serínaðan var samin fyrir strengjakvartett (tvær fiðlur, lágfiðlu og selló), með möguleikanum á kontrabassa spilandi sömu rödd og sellóið. Nú til dags er verkið oft flutt af stærri strengjasveit. Upphafsstef fyrsta kaflans er eitt af þekktustu stefjum sem til eru í vestrænni klassískri tónlist.

Kaflar

breyta

Fyrsti kafli

breyta

Fyrsti kaflinn er Allegro-kafli í Sónötuformi. Hann byrjar á agressífu stefi sem festir grunntóntegundina (G-dúr) vel í sessi og þar á eftir kemur rólegra stef í D-dúr, fortónstóntegund G-dúrs. Framsetningunni lýkur svo í D-dúr og er endurtekin. Úrvinnslan hefst í D-dúr og snertir á d-moll og C-dúr áður en verkið fer aftur í G-dúr fyrir lokaframsetninguna. Í lokaframsetningunni er eru helstu stefin úr frumframsetningunni spiluð í G-dúr og endar í kaflinn þeirri tóntegund.

 
Fyrsti þeminn

Annar kafli

breyta

Annar kaflinn er rómansa með hraðamerkingunni andante. Hann er í C-dúr (undirfortónstóntegund G-dúrs) og rondó-formi sem setja má upp sem ABACA. Fyrsta stefið (A) er tignarlegt og lagrænt. Á eftir því kemur annað stefið (B) sem er hrynrænna en það fyrsta. Því næst kemur fyrsta stefið aftur og á eftir því þriðja stefið (C) sem er dekkra en hin tvö og kemur aðeins við í c-moll. Því næst kemur A-stefið í þriðja sinn til að ljúka kaflanum af.

Þriðji kafli

breyta

Þriðji kaflinn er menúett og tríó (ABA) og danslegur eftir því. Hann er í grunntóntegundinni G-dúr og er alegretto að hraða. Kaflinn hefur tvö stef, menúett og tríó. Hann byrjar á menúettnum, því næst kemur tríóið og svo er menúettinn endurtekinn. Hann endar, eins og hann byrjar, í G-dúr.

Fjórði kafli

breyta

Fjórði og seinasti kaflinn er sónöturondó. Hann er sannur lokakafli og líflegur líkt og fyrsti kaflinn. Í framsögunni er flakkað milli tveggja stefja. Í úrvinnslunni er flakkað milli nokkurra tóntegunda og endar í G-dúr. Stefin tvö koma svo aftur í lokaframsetningu og kaflinn endar á hala þar sem fyrsta stefið kemur aftur fyrir.

Fimmti kafli?

breyta

Samkvæmt skrá Mozarts sjálfs á verkum sínum hefur verkið fimm kafla. Annar kaflinn, samkvæmt hans skráningum, á að vera menúett og tríó og var lengst af talinn glataður. Tónlistarfræðingurinn Alfred Einstein hefur hins vegar lagt til að menúett í Píanósónötu í b, K.498a, sé í raun hinn týndi kafli. Síðan þá hefur menúettinn verið spilaður af strengjakvartettum, þó svo að tónlistarfræðingar séu ekki á eitt sáttir um hvort Einstein hafi haft rétt fyrir sér.